Choose year

2024 (7)
2023 (21)
2022 (16)
2021 (23)
2020 (21)
2019 (26)
2018 (19)
2017 (22)
2016 (19)
2015 (20)
2014 (19)
2013 (16)
2012 (17)
2011 (23)
2010 (25)
2009 (26)
2008 (23)
2007 (20)
2006 (14)
2005 (15)
2004 (21)
2003 (15)
2002 (4)
1973 (1)
14.09.2002
17.11.2002

Arne Jacobsen - Hönnun í hundrað ár

Í ár er þess minnst að 100 ár eru liðin frá fæðingu danska arkitektsins og hönnuðarins Arne Jacobsen. Í seinasta mánuði opnaði sýning í vestursal Kjarvalsstaða á helstu verkum hans á sviði húsgagna-, iðn- og textílhönnunar, en Jacobsen er án efa þekktastur hér á landi fyrir verk sín á því sviði. Í heimalandi sínu er hann ekki síður kunnur sem frumherji nútímaarkitektúrs á 4. áratugnum og einn þekktasti arkitekt Danmerkur á 20. öld.

Í verkum hans fléttast saman áhrif frá fagurfræði alþjóðlegs módernisma og danskri hefð. Hann teiknaði m.a. húsgögn, vefnað, veggfóður og borðbúnað en mörg af frægustu húsgögnum hans voru upphaflega hönnuð sem hluti af einstökum byggingarverkefnum. Áhugavert er að bera byggingar Arno saman við húsgagnahönnun hans, þar sem tilfinning höfundarins fyrir léttleika og ótrúlega næmt formskyn hans skín í gegn í hverjum hlut.

Arne Jacobsen fæddist í Kaupmannahöfn árið 1902. Hann ólst upp á yfirskreyttu heimili vel stæðra foreldra í Kaupmannahöfn og vakti snemma athygli fyrir góða teiknikunnáttu. Á unglingsárum komst hann í kynni við bræðurna Mogens og Flemming Lassen, sem báðir urðu þekkt nöfn í danskri byggingarlist. Þau kynni urðu til þess að Arne ákvað að hefja nám í arkitektúr en hugur hans hafði fremur staðið til myndlistarnáms. Á námsárunum hlaut Arne sína fyrstu viðurkenningu fyrir hönnun stóls fyrir danska sýningarskálann á Heimssýningunni í París árið 1925, sem kennari hans, Kay Fisker, teiknaði.

Rætur Arne Jacobsens sem arkitekts lágu í þeim stranga, nýklassíska stíl sem kom fram á árum fyrri heimsstyrjaldar. Þessi hreyfing kom fram sem andsvar við rómantískum stílhreyfingum aldamótaáranna en var um leið undanfari þeirrar róttæku viðhorfsbreytingar sem varð með tilkomu módernismans í arkitektúr. Að þessu leyti stóð Arne Jacobsen í sömu sporum og Alvar Aalto í Finnlandi og Erik Gunnar Asplund í Svíþjóð en fyrstu verkefni allra þessara frumherja módernisma í norrænum arkitektúr voru í klassískum anda.

Íslenskur fulltrúi þessarar sömu stefnu var Sigurður Guðmundsson arkitekt, sem kom heim frá námi í Kaupmannahöfn árið 1925, höfundur barnaskóla Austurbæjar og íbúðarhúss Ólafs Thors við Garðastræti 41 í Reykjavík. Upphaf sjálfstæðs ferils Arne Jacobsens sem arkitekts má rekja aftur til ársins 1928 er hann hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um einbýlishús framtíðarinnar ásamt Flemming Lassen.

Verðlaunahúsið var reist sem hluti heimilissýningar í Kaupmannahöfn árið 1929 og vakti mikla athygli. Hringform hússins var afar nýstárlegt sem og sú mynd sem höfundarnir gáfu af tæknivæddu framtíðarheimili þar sem íbúarnir gátu valið um að aka inn í húsið á bíl, sigla inn á hraðbáti eða lenda á þaki þess í eins konar þyrlu. Sú bernska sýn á möguleika tækninnar og nýrrar byggingarlistar til að skapa nýjan og betri heim fyrir allan almenning var táknræn fyrir tíðarandann á þessum bernskuárum módernismans, áður en að skuggi heimskreppu og aðdragandi seinni heimstyrjaldar féll yfir Evrópu.

Í lok 6. áratugarins teiknaði Arne Jacobsen hringlaga einbýlishús á strandlóð við ysta odda Sjálands sem um margt var líkt framtíðarhúsi hans frá árinu 1929. Árið 1931 hlaut Arne Jacobsen verðlaun í lokaðri samkeppni um hönnun baðstrandar við Bellevue strandhótelið við Strandvejen í Gentofte. Var ströndin opnuð ári síðar með búningsklefahúsum og sölubásum sem Arne teiknaði.

Áhersla á böð og heilsurækt var veigamikill þáttur í nútímalegri lífsstíl almennings sem þá var í mótun og ímynd hinar nýju byggingarlistar var hluti af, ásamt nýjustu samgöngu- og heimilistækjum, óformlegri fata- og hártísku og jazztónlist frá Ameríku. Í framhaldi af hönnun baðstrandarinnar var Arne Jacobsen falið að teikna fleiri byggingar í næsta nágrenni baðstrandarinnar: fjölbýlishúsið “Bellavista” á lóð handan götunnar, yfirbyggða reiðhöll og Bellevue-leikhúsið með opnanlegu þaki og veitingahúsi í samtengdri álmu.

Léttleiki hins nýja stíls einkenndi allar þessar byggingar, hvít hreinskorin form með stórum gluggaflötum. Þær eru nú á lista yfir merkustu byggingar á Norðurlöndum frá upphafsárum módernimans, enda fágætt að varðveist hafi svo samstæð heild bygginga eftir sama höfund frá þessu tímabili. “Bellavista” fjölbýlishúsið var hannað undir sterkum áhrifum frá Bauhaus-skólanum og verkum arkitektsins Ernst May í Frankfurt, eins helsta frumkvöðuls að hönnun íbúða í anda notagildisstefnu. Fjölbýlishúsið er byggt í skeifu umhverfis sameiginlegan garð sem opnast út á móti Eyrarsundi. Flestallar íbúðirnar eru með svölum og hornglugga á stofu þaðan sem njóta má suðursólar og útsýnis út á hafið.

Til að gera þetta mögulegt og jafnframt tryggja friðhelgi hverrar íbúðar er langhlið hússins byggð í stöllum. Stöllunin skapar líflegt samspil teningslaga forma sem er veigamikill þáttur í byggingarlist hússins. Það, ásamt fínleikanum sem einkennir allar útfærslur í hönnun, skipar Bellavista í hóp með merkustu íbúðarbyggingum frá frumárum módernismans í Evrópu. Lítil bensínstöð við Strandvejen milli Kaupmannahafnar og Gentofte sem Arne teiknaði árið 1937 er óvenjuleg vegna léttbyggðs skyggnis úr járnbentri steinsteypu sem borið er uppi af einni súlu. Lífrænt formið minnir mjög á bak “Maursins”, stólsins fræga sem Arne átti síðar eftir að hanna úr formbeygðri viðarplötu.

Ýmis vandkvæði voru á því að innleiða hugmyndir módernismans í Danmörku þar sem þau efni sem formhugsun stefnunnar byggðist á, steinsteypa og stál, voru lítt notuð í dönskum byggingariðnaði. Þar var múrsteinninn allsráðandi og önnur efni ekki samkeppnishæf. Líkt og fleiri danskir arkitektar valdi Arne þann kost að laga nútímalaga hönnun sína að múrsteinshefðinni og vinna með hana á skapandi hátt. Var sú þróun í takt við breyttar áherslur í arkitektúr módernismans víða um heim á seinni hluta 4. áratugarins, þar sem áhrifa fór að gæta frá staðbundnum byggingaraðferðum og hefðum í notkun efnis.

Árið 1937 hlaut tillaga Arne Jacobsens og Eriks Møllers fyrstu verðlaun í samkeppni um hönnun ráðhúss í Árósum. Í umsögn dómnefndar var tillagan lofuð fyrir hófstillt en jafnframt virðulegt yfirbragð þar sem ytra útlit er lýsandi fyrir þá starfsemi sem fram fer innan dyra.

Áhrif frá verkum Asplunds eru auðsæ í tillögunni, en hann hafði þá nýlega lokið við umdeilda stækkun dómhússins í Gautaborg. Ekki voru þó allir sáttir við ásýnd hins nýja ráðhúss, þar eð enginn var turninn. Á endanum var arkitektunum stillt upp við vegg og þeim gert að hanna turn á ráðhúsið eða öðrum kosti segja sig af verkefninu. Tóku þeir fyrri kostinn, þó ekki væru þeir sáttir við niðurstöðuna, enda þykir turninn nú vera lýti á annars ágætri byggingu. Innviðir ráðhússins eru listilega útfærðir og nánast hvert atriði í búnaði þess sérhannað af höfundunum.

Af öðrum kunnum verkum Arne Jacobsens frá 4. áratugnum má nefna Stelling-húsið, verslunar- og skrifstofubyggingu á hornlóð við Gamlatorg í miðborg Kaupmannahafnar. Húsið er tvískipt í uppbyggingu líkt og hefðbundið borgarhús við Strikið: neðri hlutinn gegnsær með samfelldum glerflötum en sá efri klæddur grænum flísum er mynda samfellt yfirborðsflöt með ferningslaga gluggunum. Á báðum hlutum hússins sveigir framhliðin í mjúkum boga fyrir hornið. Þó að stíll hússins væri nútímalegur voru hæðarhlutföll framhliðarinnar nákvæmlega ákvörðuð út frá veggbrúnum aðliggjandi húss í klassískum stíl.

Þrátt fyrir þetta þótti borgarbúum Stelling-húsið vera í hrópandi andstöðu við umhverfið og í blaðagreinum var þess krafist að Arne Jacobsen yrði sviptur leyfi til að hanna byggingar. Um líkt leyti teiknaði hann rannsóknarhús fyrir Novo-lyfjafyrirtækið í Kaupamannahöfn þar sem framhliðin var sveigð í boga fyrir horn líkt og á Stelling-húsinu. Verkefnið markaði upphafið af löngu og farsælu samstarfi en Novo var alla tíð meðal mikilvægustu viðskiptamanna teiknistofu Arne Jacobsen. Sá frægi stóll Maurinn var í upphafi hannaður fyrir kaffistofu Novo-fyrirtækisins árið 1952.

Á árum seinni heimstyrjaldar varð stöðnun í danskri byggingarlist í kjölfar hernáms nasista. Árið 1943 flúði Arne Jacobsen til Svíþjóðar og dvaldi þar uns styrjöldinni lauk. Eftir stríðið komst Evrópa aftur í tengsl við Ameríku, en þangað höfðu margir frumherjar nútímaarkitektúrs flúið. Í þeim hópi voru nokkrir helstu kennarar þýska Bauhaus-skólans, m.a. arkitektarnir Walter Gropius og Ludwig Mies van der Rohe. Á námsárunum hafði Arne séð sýningu á verkum Mies í Berlín sem hafði sterk áhrif á hann.

Eftir seinni heimstyrjöld var Mies van der Rohe á ný mikill áhrifavaldur á framvindu módernisma í arkitektúr, með byggingum og skipulagi í anda strangrar naumhyggju fyrir IIT-tækniháskólann í Chicago og hugmynd sinni um léttan útvegg háhýsa úr gleri og málmi, sem átti eftir að setja mikinn svip á vestrænar borgir eftirstríðsáranna. Í þeim anda er kunnasta verk Arne Jacobsen, SAS-hótelið í miðborg Kaupmannahafnar, hannað og byggt á árunum 1955-60.

Áform flugfélagsins um að reisa nútímalegt háhýsi í miðborg Kaupmannahafnar að amerískri fyrirmynd voru umdeild frá upphafi. Margir óttuðust að tuttugu hæða kassalaga glerbyggingin myndi eyðileggja hina sérstæðu ásýnd borgarinnar með sínum skrautlegu, koparklæddu turnspírum. Þó var talið bót í máli að arkitektinn var danskur. Enda þótt SAS-hótelið beri öll útlitseinkenni hins alþjóðlega módernisma eftirstríðsáranna sem fengið hefur harðan dóm í ljósi sögunnar þá eru það, líkt og í öðrum verkum Arne Jacobsen, fínleg útfærsluatriði og sterkt formskyn höfundarins sem lyfta þessari byggingu skör ofar.

Sjálfur hótelturninn er skilinn að frá tvílyftri sökkulbyggingu með inndreginni hæð. Augljós fyrirmynd að þessari uppbyggingu er Lever-House í New York, byggt árið 1952 eftir uppdráttum teiknistofunnar Skidmore, Owings & Merrill, einn fyrsti skýjaklúfurinn í þeirri borg með léttbyggðum útvegg úr gleri. Í báðum tilvikum er gerður skýr greinarmunur á einkennum láréttra og lóðréttra forma.

Aðgreiningin er jafnframt táknræn fyrir ólíka þætti í innri starfsemi. Í lágbyggingu hótelsins eru almenningsrými í beinum tengslum við götuna: anddyri, gestamóttaka, veitingasalir, verslanir og skrifstofur. Léttur útveggur hótelturnsins er með mildum grænum lit með lóðréttum listum úr áli sem hindra það að innri skilveggir hafi sýnileg áhrif á útlit hússins. Litatónn glersins var valinn með tilliti til himinsins og því hvernig skýjafarið speglast í glerinu. SAS hótelið hefur alla tíð notið þess að vera eina nútímalega háhýsið í hjarta miðborgarinnar og hefur því öðlast sess sem einstakur fulltrúi síns tímabils í sjónarrönd Kaupmannahafnar.

Annað sérkenni þess er gegnumfærð hönnun innanhúss, þar sem arkitektinn hafði traust tök á hverju smáatriði. Hann hannaði m.a. teppi hótelsins, lampa, gluggatjöld, borðbúnað og hnífapör. Hæst ber þó stólana Svaninn og Eggið, sem báðir voru sérstaklega hannaðir fyrir hótelið. Enn í dag má sjá húsgögn Arne Jacobsen víða í byggingunni og eitt herbergi hótelsins, nr. 606 er varðveitt með öllum upphaflegum búnaði.

Af síðari byggingum Arne Jacobsen má nefna aðalstöðvar Seðlabanka Danmerkur við Holmens Kanal, skammt frá Kristjánsborgarhöll í hjarta Kaupamannahafnar. Bankinn var teiknaður í kjölfar lokaðrar samkeppni árið 1961 en var ekki fullbyggður fyrr en nokkrum árum eftir andlát höfundarins árið 1971. Arkitektarnir Hans Dissing og Otto Weitling sáu um lokafrágang byggingarinnar að höfundinum látnum.

Utan að sjá er bankinn virki líkastur og stingur óneitanlega í stúf við gömlu húsin umhverfis. Innan dyra opinberast meistaraleg tök höfundarins á mælikvarða, birtu og rými, einkum í fleigmynduðum forsalnum með tuttugu metra lofthæð, þar sem eina skreytið er fagurlega smíðaður stigi sem hangir neðan úr loftinu við breiðari enda rýmisins.

Ólíkt samlanda sínum, Jörn Utzon, arkitekt óperuhússins í Sidney, tókst Arne Jacobsen að finna sér traustan starfsvettvang í heimalandi sínu og það þó að ýmsar byggingar hans væru umdeildar á sínum tíma. Flest helstu verk hans er að finna í Danmörku, með örfáum undantekningum. Ein þeirra er St. Catherine´s College í útjaðri háskólabæjarins Oxford, byggð á árunum 1960-63.

Utan Danmerkur er Arne Jacobsen kunnari sem húsgagnahönnuður en arkitekt enda þótt sköpun hans á þessum sviðum sé nátengd. Hér á landi má greina bein og óbein áhrif frá byggingarlist Arne Jacobsen í verkum margra þeirra arkitekta 6. og 7. áratugarins sem kusu að vinna í anda hins alþjóðlega módernisma eftirstríðsáranna. Á þetta bæði við um heildarmótun bygginga og einstök útfærsluatriði. Því má með nokkrum rétti halda fram að verk hans hafi haft áhrif hér með beinni hætti en raunin var með aðra norræna arkitekta sama tímabils. Pétur H. Ármannsson

Artist/s: 
Invitation card: 
Sýningarskrá: 

Click on the pictures to view some more on Instagram and post your own by using the #hashtag of the exhibition.
Remember to follow Reykjavík Art Museum on @reykjavikartmuseum.