Útsaumur
Nokkrir samtímalistamenn vinna með útsaum, sauma út eða nýta nál og þráð við listsköpun sína. Verk þeirra endurspegla fjölbreytta nálgun þar sem ýmist er byggt á handverksarfleifð eða nálin nýtt í framsæknum tilraunum með efni og miðla. Stundum er hægt að greina þekkt útsaumsspor eins og krosssaum, aftursting, flatsaum og kappmelluspor, á meðan önnur verk eru unnin á frjálsari og nýstárlegri hátt. Nálinni sjálfri er brugðið í ýmis hlutverk; hún er notuð sem skriffæri, pensill eða verkfæri til að festa hluti saman.
Textíll naut sérstöðu í femínískri myndlist áttunda áratugarins þegar listakonur tileinkuðu sér handverk kvenna frá fyrri tíð sem þátt í eigin listsköpun. Í kjölfarið var útsaumur, ásamt öðrum greinum textíls, endurskilgreindur sem aðferð í samtímamyndlist. Áratugina á eftir fór minna fyrir útsaumi í samtímalist, en nú er eins og hann gangi í endurnýjun lífdaga. Almennt má greina vaxandi áhuga á handverki þegar litið er til síðustu ára og svo virðist sem listamenn víða um heim noti í auknum mæli hefðbundnar aðferðir á borð við útsaum til að skapa áhrifarík listaverk.
Mynd: Kristinn G. Harðarson, Útsaumur, 1996-2001