Grunnskólar

Flestar sýningar Listasafns Reykjavíkur henta grunnskólanemum á öllum aldri auk nemenda í skipulögðu frístundastarfi. Skólahópum er velkomið að koma á hvaða sýningu sem kennari telur að geti verið góður kennsluvettvangur, út frá markmiðum Aðalnámskrár um listkennslu, til að víkka skilning á verkefnum sem unnin eru í skólastofunni eða þverfaglega í tengslum við samþættingu námsgreina í þemamiðuðum verkefnum. 

Safnið leggur sérstaka áherslu á 4., 6. og 7./8. bekk sem er boðið upp á verkefni tengd Erró, Kjarval, Ásmundi og Perlufesti. Þessum skólastigum í grunnskólum Reykjavíkur er boðið upp á rútuferðir til og frá skóla. Skólahópar í öðrum bekkjum eða utan höfuðborgarinnar eru auðvitað velkomnir í leiðsögn að kostnaðarlausu en þurfa að komast á staðinn á eigin vegum.       
    
Listin að segja sögur – Ásmundarsafn fyrir 4. bekk. Listaverk Ásmundar eru oftar en ekki hlaðin frásögn. Þau vísa í Íslendingasögur, þjóðsögur og goðafræði – en einnig í daglegt líf fyrri tíma. Verkefni er unnið á staðnum og er ætlað að varpa ljósi á listamanninn, samtíð hans og viðfangsefni og gefa nemendum tækifæri á að vinna með mismunandi sjónarhorn þrívíðra verka hans. 

Listin að rannsaka – Kjarvalsstaðir fyrir 6. bekk. Heimsóknin veitir innsýn í ævistarf Kjarvals sem var einn af frumkvöðlum íslenskrar málaralistar. Sjónum er beint að rannsóknum Kjarvals á náttúrunni og ólíkum birtingarmyndum hennar í málverkum hans. Nemendur skoða lykilverk eftir listamanninn og vinna verkefni.

Listin að gera tilraunir – Hafnarhús fyrir 7. og 8. bekk Hvernig fara listamenn að því að víkka út listræn mörk og fá nýjar hugmyndir? Í Hafnarhúsinu er áherslan á samtímamyndlist þar sem listmiðillinn er í stöðugri endurskoðun. Verk listamannsins Errós eru þar til sýnis en hann hefur tileinkað sér stefnur og strauma í anda pop-listar. Við hugsum um aðferðir hans við að nota fundnar myndir og setja fram í nýju samhengi. 

Listin að búa til útilistaverk Perlufesti í Hljómskálagarði fyrir 5. bekk.  Höggmyndagarðurinn Perlufesti er til minningar um upphafskonur íslenskrar höggmyndalistar. Hér gefst tækifæri til að njóta útiveru og hugsa um hlutverk listaverka í opinberu rými, ólík form, stílbrigði eða inntak, sögu jafnréttisbaráttu eða bregða á myndastyttuleik. 

Listin í fjarkennslu – Listasafn Reykjavíkur býður upp á fjölda leiða til þess að fræðast um myndlist með rafrænum leiðum. 

Listasafn í skólann – flökkusýningar eru sérhannaðar fræðslusýningar sem grunnskólar Reykjavíkur geta fengið að láni til sín endurgjaldslaust.

 

Grunnskólar. Ljósmynd: Ingibjörg Hannesdóttir.