Útilistaverk og listaverkagarðar

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með útilistaverkum í Reykjavík, sem finna má um alla borg. Við hvetjum nemendur og kennara til að njóta listaverkanna í nágrenni skólanna og/eða í þeim höggmyndagörðum sem borgin skartar til náms og skemmtunar. Við bjóðum upp á leiðsagnir með safnkennara og hljóðleiðsögn í Perlufesti – höggmyndagarð kvenna í Hljómskálagarðinum, og hljóðleiðsagnir og leiki á fjölmörgum stöðum í borginni í gegnum appið okkar Útilistaverk í Reykjavík / Reykjavik Art Walk.

App með upplýsingum, leiðsögnum og leikjum: Útilistaverk í Reykjavík
Listasafn Reykjavíkur kynnir með stolti nýtt og vandað app um útilistaverk í Reykjavík. Á einfaldan og skemmtilegan hátt má fræðast um öll útilistaverk sem Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með í borgarlandinu, ásamt fleiri verkum, hlusta á hljóðleiðsagnir og fara í skemmtilega leiki. Appinu má hlaða niður endurgjaldslaust í snjalltæki, bæði fyrir iOS og Android stýrikerfi. Appið er bæði á íslensku: Útilistaverk í Reykjavík, og ensku: Reykjavík Art Walk – allt eftir stillingu snjalltækisins. Appið hentar bæði fyrir börn og fullorðna, og einstaklega vel í kennslu.

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með um tvö hundruð útlistaverkum í borginni. Með appinu er hægt að nálgast upplýsingar um verkin. Þar er að finna myndir, texta, hljóðleiðsagnir og leiki. Útilistaverk í Reykjavík styðst við GPS staðsetningarbúnað símans til að vísa leiðina að næsta verki á almannfæri. Smáforritið býður upp á fræðslu og sögur á bak við hvert og eitt verk.

Sækja á App Store
Sækja á Google Play

Perlufesti í Hljómskálagarði
Perlufesti – höggmyndagarð kvenna er að finna í suð-vestur horni Hljómskálagarðsins uppvið Hringbraut vestanmegin.

Höggmyndagarðurinn Perlufesti var opnaður þann 19. júní 2014 en hann er til minningar um upphafskonur íslenskrar höggmyndalistar.  Garðurinn hlaut nafnið Perlufesti að tillögu Gjörningaklúbbsins. Nafnið vísar til hringlaga afstöðu verkanna til hvers annars í garðinum, en undirstrikar einnig að listakonurnar og verk þeirra eru sérstök hvert fyrir sig, líkt og perlur sem hafa verið þræddar upp á þráð.

Í Perlufestinni eru höggmyndir eftir sex konur sem voru frumkvöðlar í höggmyndalist hér á landi, þær Gunnfríði Jónsdóttur (1889–1968), Nínu Sæmundsson (1892-1962), Tove Ólafsson (1909-1992), Þorbjörgu Pálsdóttur (1919-2009), Ólöfu Pálsdóttur (1920) og Gerði Helgadóttur (1928-1975). Verkin sem um ræðir eru: Landnámskonan eftir Gunnfríði, Hafmeyjan eftir Nínu, Maður og kona eftir Tove, Piltur og stúlka eftir Þorbjörgu, Sonur eftir Ólöfu og Skúlptúr eftir Gerði. Garðurinn er minnisvarði um það mikilvæga frumherjastarf sem konurnar unnu á tímum þegar lítill skilningur var á að þær legðu fyrir sig listsköpun. Höggmyndagarður í miðborg Reykjavíkur undirstrikar stöðu listkvennanna sem formæðra sameiginlegrar listhefðar allra landsmanna.

Hallsteinsgarður í Grafarvogi
Árið 2013 tók Listasafn Reykjavíkur við gjöf Hallsteins Sigurðssonar myndlistarmanns til Reykvíkinga. Um var að ræða 16 höggmyndir úr áli sem Hallsteinn kom fyrir í landi Gufuness á árunum 1989 til 2012 og standa á hæð austan við gömlu áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Í dag er þar skemmtilegur gróinn höggmyndagarður, þar sem skúlptúrarnir hafa notið sín og veitt gestum og gangandi ánægju eftir að byggð þéttist og eitt stærsta úthverfi í Reykjavík, Grafarvogur, byggðist upp. Verk Hallsteins Sigurðssonar eru víða á söfnum, í einkaeign og í almenningsrými. Hann hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Hallsteinsgarður er tilvalinn vettvangur fyrir skóla í Grafarvogi til að nýta í námi og leik. Einnig er skemmtilegur ratleikur um garðinn í appinu Útilistaverk í Reykjavík/Reykjavik Art Walk (sjá hér að ofan). 

 

Útilistaverk og listaverkagarðar