15.04.2019
Áður óþekktar myndir Sölva frá Danmörku
Átján áður óþekkt verk eftir listamanninn Sölva Helgason koma fyrir almenningssjónir í fyrsta sinn á sýningu á verkum Sölva sem opnuð verður í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum 25. maí næstkomandi.
Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, afhendir verkin á Kjarvalsstöðum kl. 15.00 í dag.
Verkin hafa verið varðveitt í Kaupmannahöfn í yfir 100 ár, en Ingrid Nielsen, eigandi verkanna, hefur ákveðið að gefa þau íslensku þjóðinni. Amma hennar og nafna, sem var á Íslandi um tíma, kom með verkin til Danmerkur árið 1912.
Harpa Björnsdóttir, myndlistamaður og sýningarstjóri sýningarinnar, segir verkin ómetanlegan íslenskan menningararf sem nú er loksins kominn heim.