Ákall: Viltu taka þátt í listaverki?
Listasafn Reykjavíkur vinnur nú að sýningu á verkum Yoko Ono sem verður opnuð í Hafnarhúsinu 7. október. Mörg verka listakonunnar verða til með þátttöku sýningargesta, bæði fyrir sýninguna og eins á meðan á henni stendur. Eitt verkanna, Upprisa, samanstendur af sögum kvenna sem orðið hafa fyrir hverskyns ofbeldi sem rekja má til þess að þær eru konur. Konur eru beðnar um að skrifa sögu sína og senda til safnsins ásamt ljósmynd af augum sínum.
Upprisa er marglaga verk sem lætur lítið yfir sér í uppbyggingu og frásögn. Það reiðir sig á framlag þátttakenda til að mynda kraftmikinn samhljóm frásagna sem í senn tjá sögu einstaklingsins og margradda sögu samfélagsins. Verkið ber með sér áleitna pólitíska og samfélagslega skírskotun og minnir okkur á að samfélög okkar stjórnast enn af „frumskógarlögmálinu“ og í þeim er gríðarlega þjáningu að finna. Verkið er hvatning til jafnréttis, friðar og hópaðgerða, og til þess að efla meðvitund um eigin tilvist og tengsl við aðra. Upprisa verður þannig nokkurs konar áminning og boð um að taka ábyrga, siðferðilega og gagnrýna afstöðu.
Konur um allan heim hafa áður tekið þátt í þessu verki og það er von okkar að konur sem hafa slíkar sögur að segja séu tilbúnar að deila þeim með okkur og taka þannig þátt í að skapa verkið Upprisu.
Meðfylgjandi er vefslóð á Facebook viðburð með bréfi frá Yoko Ono sem okkur væri mikils virði að fólk deildi áfram til kvenna og legði okkur þannig lið í að búa til margradda sögu kvenna í okkar samfélagi.
Upprisa er verkefni sem heldur áfram og alltaf hægt að bæta við frásögnum. Komið með frásagnir og ljósmyndir í safnið, sendið þær í pósti til: Upprisa, Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsi, Tryggvagötu 17, 101 Reykjavík, eða með tölvupósti á: arising@reykjavik.is. Fullum trúnaði er heitið.