Fjórar nýjar sýningar í undirbúningi

Fjórar nýjar sýningar í undirbúningi

Sýningarárið 2021 hefst af krafti með fjórum nýjum sýningum í Hafnarhúsinu.

Við hefjum leikinn 28. janúar í D-salnum með listamanninum Klængi Gunnarssyni á sýningunni Krókótt. Með samsnúningi af heimildagerð og skáldskap, reynir Klængur að ná fram hlykkjóttu sjónarhorni á hversdagslega atburði og athafnir.

30. janúar snúum við okkur að hinum goðsagnakennda ljósmyndara Ragnari Axelssyni - RAX, á stórsýningunni Þar sem heimurinn bráðnar. Sýningin tekur yfir tvo stóra sali á 2. hæð hússins, með myndum af mönnum, dýrum og jöklum á Grænlandi og Íslandi.

Þann 5. febrúar verður boðið upp á sýningu listakonunnar Huldu Rósar Guðnadóttur í A-sal: WERK – Labor Move. Verkið samanstendur af þriggja rása kvikmyndaverkinu Labor Move, skúlptúrum beintengdum því og upptöku af vinnu við samsetningu skúlptúranna í salnum.  

Tveimur vikum síðar, 18. febrúar umbreytast svo Erró-salirnir tveir í stóra samsýningu, Dýrslegur kraftur, þar sem myndlistarmaðurinn Birgir Snæbjörn Birgisson hefur valið fjölda listamanna til þess að sýna verk sín með verkum Errós sjálfs. 

Við bjóðum gesti velkomna að njóta sýninganna á opnunartíma safnsins. Vegna fjöldatakmarkana verða engar formlegar opnanir.