Gera við útilistaverk
Það er að mörgu að hyggja í Listasafni Reykjavíkur og eitt af mikilvægustu verkefnunum á hverju sumri er að yfirfara útilistaverkin í borginni. Þau eru þrifin og bónuð, gert er við skemmdir og þau máluð svo eitthvað sé nefnt.
Verkefnið hefur gengið einstaklega vel í sumar enda komu til starfa framúrskarandi námsmenn fyrir tilstuðlan vinnumarkaðsátaks Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnunar fyrir námsmenn. Útilistaverkaviðgerðarhópurinn hefur í sumar snert á um fimmtíu verkum í borgarlandinu en alls eru þau tæplega 200.
Hér stendur hópurinn við verkið Hyrningar VI eftir Hallstein Sigurðsson, frá árinu 1975. Verkið stendur á horni Langholtsvegar og Álfheima. Í efri röð frá vinstri eru sumarstarfsmennirnir Steinn Völundur Halldórsson, Lorenzo Imola og Guðni Rósmundsson og í neðri röðinni standa þau Jeannette Castioni, forvörður og Erik Hirt, sérfræðingur safneignar hjá Listasafni Reykjavíkur.