Hildigunnur Birgisdóttir hlýtur styrk úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur

Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Hildigunni Birgisdóttur og Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur

Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, veitti í kvöld Hildigunni Birgisdóttur verðlaunafé og viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur, fyrir framlag hennar á sviði myndlistar. Afhendingin fór fram við opnun á sýningum Errós, Stríð og friður, og YOKO ONO: EIN SAGA ENN... í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. 

Erró stofnaði sjóðinn til minningar um móðursystur sína, Guðmundu. Þetta er í sautjánda skipti sem styrkur er veittur úr sjóðnum en framlagið rennur til listakonu sem þykir skara fram úr. Markmiðið er að styrkja listakonur með því að veita framlag til viðurkenningar og eflingar á listsköpun þeirra. 

Hildigunnur Birgisdóttir er fædd árið 1980 og lauk námi við Listaháskóla Íslands 2003. Hún hefur alla tíð síðan eflst sem listamaður og skapað sér sérstöðu. Hún byrjaði smátt og fæst reyndar stundum enn við alls kyns smælki, agnarsmáa skúlptúra sem eru samsettir úr fundnum efnum. Þetta eru kunnuglegir en samt einhvern veginn framandi  og einstakir gripir. Hildigunnur er einnig gjörn á að safna, flokka og raða og á svipaðan hátt og Erró skapar hún sinn eigin myndheim úr efnivið sem við þekkjum vel. Verk listakonunnar endurspegla forvitni og leikgleði, grallaralegt skopskyn í bland við yfirvegaða íhygli og fá mann til að staldra við.

Hildigunnur hefur ekki aðeins sinnt eigin listsköpun heldur verið mjög virk í hvers konar samstarfi með öðrum listamönnum og sinnt félagsstörfum í þágu myndlistarlífsins. Þá hefur hún staðið að frumlegum og áhugaverðum listviðburðum, nú síðast sýningarröðinni Meðvirkni í Harbinger gallerí sem óx og margfaldaðist eftir því sem á leið sýningartímann. Sjálf hefur hún sýnt hér í Listasafni Reykjavíkur í D-salar-röðinni og einnig í Hverfisgalleríi, Listasafni ASÍ og víðar.

Það var einróma álit dómnefndar Listasjóðs Guðmundu S. Kristinsdóttur að Hildigunnur Birgisdóttir skuli að þessu sinni hljóta viðurkenningu úr sjóðnum.

Þær konur sem áður hafa hlotið viðurkenningu úr sjóðnum eru Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Ósk Vilhjálmsdóttir, Ólöf Nordal, Finna Birna Steinsson, Katrín Sigurðardóttir, Gabríela Friðriksdóttir, Sara Björnsdóttir, Þóra Þórisdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hulda Stefánsdóttir, Margrét H. Blöndal, Sara Riel, Þórdís Aðalsteinsdóttir, Guðný Rós Ingimarsdóttir og Ásdís Sif Gunnarsdóttir.

Stjórn sjóðsins skipa safnstjórar Listasafns Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir, Listasafns Íslands, Halldór Björn Runólfsson og Listasafnsins á Akureyri, Hlynur Hallsson. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun í vörslu borgarsjóðs Reykjavíkur. Umsjón með sjóðnum hafa Reykjavíkurborg og Errósafnið.