Hildur Bjarnadóttir hlaut menningarverðlaun DV 2016

Myndlistakonan Hildur Bjarnadóttir tók við menningarverðlaunum DV í flokki myndlistar fyrir árið 2016 í Iðnó, miðvikudaginn 15. mars. Listasafn Reykjavíkur óskar Hildi hjartanlega til hamingju!

Um Hildi og verk hennar skrifar DV:
„Hildur Bjarnadóttir (f. 1969) hélt tvær sýningar í Reykjavík á síðasta ári sem undirstrikuðu vel sérstöðu hennar og einstakan skilning hennar á efnivið sínum og aðferðum. Hildur hefur um árabil verið einn framsæknasti textíllistamaður okkar og hefur í raun umbylt því hvernig við lítum á tilgang og möguleika þessa listmiðils. Sýning hennar í Vestursal Kjarvalsstaða bar heitið Vistkerfi lita og samanstóð af lituðum textíl. Litina hafði Hildur unnið úr gróðri af landspildu sem hún á í Flóahreppi en þar vex blóðberg, krossmaðra, hrútaberjalyng, þursaskegg, klófífa, hálmgresi og mýrasóley, ilmreyr, bugðupuntur, mjaðjurt, og fleira. Allan þennan gróður má nota til að lita þræði og ofið efni. Sýningarverkefnið verður þannig skráning á landinu og náttúrunni, yfirlit yfir það vistkerfi sem þrífst á þessum bletti á Suðurlandi. Undir lok árs opnaði Hildur svo aðra sýningu í Hverfisgalleríi þar sem hún sýndi nýjustu verk sín."