Jólamarkaður – Hönnun, myndlist, tónlist og upplifun
PopUp Verzlun heldur nú sinn árlega jólamarkað í portinu í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, laugardaginn 5. des. kl. 11 til 17.
Hönnuðir, myndlistamenn og tónlistarfólk koma saman á skemmtilegum markaði ásamt ógrynni af fallegum vörum og listaverkum af ýmsum toga. PopUp Eldhús verður sett upp í fjölnota rýminu, útgáfuhóf, bóka upplestur, lifandi tónlistarflutningar og margt fleira verður á dagskrá.
38 myndlistarmenn og hópar, hönnuðir, vefverslanir, studíó og gallerí taka þátt og hafa þeir aldrei verið fleiri. Kvennakór Kópavogs kemur og tekur jólalög kl. 16 og sérstakt útgáfuhóf á bókinni og söngleiknum Björt í Sumarhúsi byrjar kl. 13. Þórarinn Eldjárn og Elín Gunnlaugsdóttir árita bækur. Valgerður Guðnadóttir, Jón Svavar Jósefsson og Una Ragnarsdóttir syngja atriði úr óperusöngleik.
Nýjasta viðbót PopUp Verzlunar er PopUp eldhús. Þar verður vegan-kokkurinn Linnea Hellström gestakokkur ásamt kærasta sínum Krumma Björgvinssyni og stúlkur úr hljómsveitinni Kælan Mikla munu standa vaktina með þeim. Matseðillinn verður jólalegur og spennandi og hægt verður að ylja sér um hjartaræturnar með Popumpkim graskers- og sætkartöflusúpu, FocChristmas samlokum, sætindum og ólgandi eplasíder.
Jólamarkaður PopUp Verzlunar í ár verður stútfullur af fallegum lífstílsvörum, einstökum listaverkum, kræsingum og ljúfri tónlist.