Listaverk vikunnar: Einhyrningur, Tvíhyrningar

Listaverk vikunnar: Einhyrningur, Tvíhyrningar eftir Magnús Tómasson frá 1990.

Listaverk vikunnar er Einhyrningur, Tvíhyrningar eftir Magnús Tómasson frá 1990. Verkið er staðsett við Vesturbæjarskóla.

Magnús fékk það verkefni að vinna að skúlptúrum fyrir utan Vesturbæjarskóla og gera lóðina í náinni samvinnu við arkitektinn Ingimund Sveinsson. Steinarnir eru ómótaðir af hönd listamannsins en hann hefur fest á þá nautshorn og einhyrningshorn úr áli. Við fáum á tilfinninguna að þarna standi einhyrningur á móti tveimur nautum. Steinarnir mynda ögrandi spennu gagnvart skólabyggingunni og umhverfinu og eru til þess fallnir að vekja ímyndunarafl barnanna sem þar stunda nám og fá þau til að hugsa um umhverfi sitt á frjóan og sjálfstæðan hátt.

Magnús (f. 1943) hefur á sínum ferli fengist við afar ólíka miðla svo sem sýniljóð, grafík, málverk, unnið svðsmyndir fyrir leikhús og gert upp gömul hús, enda einn af máttarstólpum Torfusamtakanna. Árið 1981 var Magnús fyrstur íslenskra listamanna nefndur borgarlistamaður.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.