Listaverk vikunnar: Skúli Magnússon
Listaverk vikunnar er Skúli Magnússon eftir Guðmund Einarsson frá 1953-4. Verkið er staðsett í Fógetagarðinum. Skúli hefur verið nefndur faðir Reykjavíkur en feðradagurinn er 10. nóvember.
Ekki er vitað hvernig Skúli leit út en þó er ekki langt liðið frá andláti hans. Styttan er býsna karlmannleg á að líta – og það vekur sérstaka athygli hvað hann er í stórum skóm. Hún er gerð af Guðmundi Einarssyni frá Miðdal og segir sagan að hann hafi skoðað nokkra afkomendur Skúla og síðan ákveðið hvernig karlinn ætti að líta út á myndinni. Skúli var einn helsti boðberi upplýsingarinnar á Íslandi. Hann var kallaður Skúli fógeti, þar sem hann gegndi embætti landfógeta og varð síðar einn helsti drifkrafturinn á bak við stofnun Innréttinganna. Hann var mikill stórbokki og héraðsríkur og mikill áhugamaður um framfarir. Skúli lét af embætti fyrir aldurs sakir árið 1793 og lést þann 9. nóvember árið 1794 í Viðey. Árið 1954 var reist stytta af Skúla Magnússyni í Fógetagarðinum. Verslunarmannafélag Reykjavíkurborgar gaf Reykjavíkurborg listaverkið í tilefni 100 ára afmælis frjálsrar verslunar á Íslandi.
Guðmundur Einarsson (1895-1963) tileinkaði sér mörg listform, en var frumkvöðull í höggmyndalist og leirmunagerð. Eftir hann liggur fjöldi verka.
Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.