Listaverk vikunnar: Spenna

 Spenna eftir Hafstein Austmann frá 1989.

Listaverk vikunnar er Spenna eftir Hafstein Austmann frá 1989. Verkið stendur við stjórnstöð Landsvirkjunar á Bústaðavegi.

Verkið bar sigur úr býtum í samkeppni sem Landsvirkjun efndi til árið 1989 og var sett upp árið eftir.

Þetta er einfalt form úr corten stáli sem veðrast vel með ryðguðu yfirborði. Það lítur út eins og risastórt þrívítt tilbrigði um stoðkerfið sem einkennir olíumálverk Hafsteins á níunda áratugnum. Að inntaki er verkið hins vegar eins konar hylling þeirrar orku sem gefur okkur stálið.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.