Róf: Síðasta sýningarhelgi og leiðsögn listamanns

Róf: Síðasta sýningarhelgi og leiðsögn listamanns

Yfirlitssýningunni Róf með verkum Haraldar Jónssonar myndlistarmanns lýkur sunnudaginn 27. janúar. Á sýningunni eru sýnd verk frá fjölbreyttum ferli Haraldar sem spannar um þrjá áratugi. Sýningin hefur notið mikilla vinsælda. 

Verk Haraldar eru spunnin upp úr athugunum sem tengjast skynjun; hvernig maðurinn nemur umhverfi sitt, vinnur úr áhrifunum og miðlar áfram af reynslunni. Tungumál, litir, tilfinningar, ljós, myrkur og þögn eru nokkur af fjölmörgum lykilorðum sem koma til hugar í tengslum við verk hans.

Sýningin teygir sig út fyrir safnið, yfir götuna til nágranna við Flókagötu og út í almannarýmið þar sem hljóðverk listamannsins hljóma úti fyrir Kjarvalsstöðum.

Leiðsögn kl. 14.00
Á lokadegi sýningarinnar verður listamaðurinn með leiðsögn þar sem hann fer yfir ferilinn og spjallar við gesti. 

Blóðnám kl. 14-16.00
Gestir geta tekið þátt í verkinu Blóðnám á sýningunni. 

Sýningunni fylgir viðamikil sýningaskrá með textum eftir Sjón, Sigríði Þorgeirsdóttur, Kristínu Ómarsdóttur og sýningarstjóra sýningarinnar Markús Þór Andrésson. Bókin er seld á staðnum. 

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.