Sendiráð Bandaríkjanna styrkir Иorður og niður

Michelle Yerkin, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi hefur veitt Listasafni Reykjavíkur veglegan styrk vegna myndlistarsýningarinnar Иorður og niður: Samtímalist á Norðurslóðum sem sett verður upp í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi haustið 2022.

Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, og Michelle Yerkin, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, undirrituðu samninginn í Hafnarhúsinu.

Michelle Yerkin sagði: Sendiráð Bandaríkjanna styrkir Иorður og niður: Samtímalist á Norðurslóðum með mikilli ánægju. List fer yfir höf og landamæri, ásamt því að dýpka skilning milli þjóða. Við trúum því að það sé áríðandi að sameinast um mikilvæg málefni eins og umhverfið og áskoranir Norðurslóða.

Ólöf Kristín Sigurðardóttir sagði: Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fá viðurkenningu á mikilvægi verkefnisins og þennan fjárhagslega stuðning sem sendiráðið veitir okkur.

Иorður og niður er alþjóðlegt samstarfsverkefni þriggja listasafna – auk Listasafns Reykjavíkur standa að því Portland Museum of Art í Maine í Bandaríkjunum, og Bildmuseet í Umeå í Svíþjóð. Undirbúningur þessarar viðamiklu sýningar hefur staðið frá árinu 2018 og hefur hún þá sérstöðu að vera tileinkuð samtímamyndlist í kringum N-Atlantshafið.

Viðfangsefni hennar snýr að því hvernig myndlistarmenn þessa heimshluta takast á við áskoranir í tengslum við breytingar í umhverfinu, lífríkinu og samfélagsgerðinni í nútíð og framtíð. Um leið og þeir takast á við breytingar á Norðslóðum endurspegla verk þeirra breytt viðhorf til norðursins þar sem gamalgrónum hugmyndum og klisjum er snúið á hvolf. Þá er markmiðið að beina sjónum að þeim sameiginlegu viðfangsefnum sem íbúar Norðurslóða takast á við og hvernig þau skapa samkennd þvert á landamæri og menningarheima. 

Sýningin verður fyrst sett upp í Bandaríkjunum í febrúar á næsta ári, síðan kemur hún hingað til Reykjavíkur haustið 2022 og stendur fram á árið 2023. Að lokum verður sýningin sett upp í Svíþjóð. 

Á sýningunni verða verk rúmlega 30 rísandi og vel þekktra listamanna samtímans. Íslensku listamennirnir sem valdir hafa verið til þátttöku eru Anna Líndal, Arngunnur Ýr, Magnús Sigurðarson, Ragnar Axelsson og listamannatvíeykið Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson.
Bandarísku listamennirnir eru Lauren Fensterstock, Reggie Burrow Hodges, Justin Levesque, Christopher Carroll, Peter Soriano, Jason Brown aka Firefly og Josh Reiman.
Aðrir listamenn koma frá sjávarhéruðum Kanada, Grænlandi, Færeyjum og hinum Norðurlöndunum. 

Sýningarstjóri fyrir hönd Íslands er Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar í Listasafni Reykjavíkur. Jaime DeSimone og Anders Jansson stýra sýningunni fyrir hönd listasafnanna í Maine og Umeå.

Sýningunni fylgir vegleg sýningarskrá og lagt er upp með efnismikla dagskrá, kvikmyndasýningar, fræðsludagskrá og viðburði fyrir börn og fjölskyldur.