Síðustu sýningardagar á Erró og listasagan og Bangsavættir eftir Kathy Clark

Samsett mynd: Kathy Clark: Bangsavættir / Erró og listasagan.

Nú fara að verða síðustu forvöð að sjá sýningarnar Erró og listasagan og Bangsavættir eftir Kathy Clark í Hafnarhúsi en þeim lýkur sunnudaginn 18. október.

Erró og listasagan
Í listsköpun Erró hefur listasagan ávallt verið mikilvæg uppspretta. Sem nemandi afritaði hann myndir þekktra málara til að læra af list þeirra. Árið 1955, þegar hann var orðinn sjálfstætt starfandi listamaður í Flórens, skapaði hann tjáningarrík málverk sem oft höfðu sterkar skírskotanir í verk málara eins og Uccello, Marini eða Tamayo.

Á árunum 1962–1963 fór Erró að blanda saman eigin myndum og afritum af myndum listamanna á borð við Bosch, Vélasquez, Modigliani og Picasso. Allt frá 1964 hefur hann gengið enn lengra og búið til klippimyndir og eftir þeim málverk sem byggð eru eingöngu á prentuðu efni, auglýsingum, teiknimyndum og  fréttamyndum en einnig myndum annarra listamanna.

Erró tekur málverk frægra listamanna eignarnámi bæði til að segja sögu þeirra og til að afvegaleiða myndir þeirra og skapa aðrar frásagnir. Picasso, Matisse, Miró og Léger eru listamenn sem hann hefur mikið sótt til. Valið á myndum byggist á því hversu vel formgerð og myndmál þeirra eru fallin til afritunar en ekki síður á þeirri miklu virðingu sem Erró hefur fyrir listamönnunum.

Kathy Clark: Bangsavættir
Uppistaðan í innsetningunni eru leikföng sem áður voru í eigu annarra. Um er að ræða þúsundir bangsa, sem listakonan hefur farið ómildum höndum um og umbreytt. Í eina tíð þjónuðu þessir mjúku og loðnu bangsar mikilvægum tilgangi sínum sem félagar barna. Þeir voru hafðir með í rúmið, þvælt um allt, klæddir og mataðir. Eins og raunin er með flesta hluti, missa þeir að lokum notagildi sitt og er troðið í glatkistuna.

Ferðin í gegn um innsetninguna teymir áhorfandann meðal annars í gegnum stofu, skýjum hulinn kirkjugarð, varðaða heiði, safn fjölskyldumynda og milli bangsatrjáa. Drungaleg lýsingin ásamt samsöng umhverfishljóða styður við maximalíska innsetninguna og birtir sálfræðilega spillingu og leyndardómsfullan veruleika sem ætlað er að kalla fram bernskuminningar áhorfandans. Þeirra á meðal minningum og tilfinningum tengdum höfnun og vanrækslu.

Kathy Clark (f. 1957) hefur búið og starfað í Reykjavík frá árinu 2005 og hefur tekið þátt í mörgum sýningum hér á landi og í Bandaríkjunum. Hún lauk mastersprófi frá San Francisco Art Institute árið 1985 eftir að hafa stundað framhaldsnám í San Diego State University.