Síðustu sýningardagar á Guð, hvað mér líður illa eftir Ragnar Kjartansson
Nú eru síðustu forvöð að sjá sýningu Ragnars Kjartanssonar, Guð, hvað mér líður illa, í Hafnarhúsi en henni lýkur sunnudaginn 24. september. Sýningin er fyrsta safnsýning Ragnars á heimavelli eftir sigurför á erlendri grundu á undanförnum árum. Þar á meðal eru meiriháttar yfirlitssýningar í virtum söfnum báðum megin við Atlantshafið.
Hafnarhúsið er undirlagt verkum Ragnars og gefur sýningin innsýn í hinn marglaga heim sem hann hefur skapað í áranna rás. Mörg verkanna hafa aldrei áður verið sýnd á Íslandi, sérstaklega sum nýlegri verkin sem hafa leikið lykilhlutverk í að tryggja listamanninum sess í alþjóðlega listaheiminum. Ennfremur eru athyglisverð eldri verk á sýningunni sem hafa sjaldan verið áður til sýnis.
Gjörningurinn Taktu mig hérna við uppþvottavélina - minnisvarði um hjónaband er þriðji og síðasti gjörningurinn á sýningunni. Þátttakendur í gjörningnum eru tíu trúbadorar sem standa vaktina á opnunartíma safnsins og spila og syngja allt til sýningarloka. Í bakgrunni má sjá atriði úr kvikmyndinni Morðsaga, en þar léku foreldrar Ragnars á móti hvort öðru í eldheitu ástaratriði. Í fjölskyldunni gengur sú saga að listamaðurinn hafi verið getinn einmitt um það leyti þegar myndin var tekin upp.
Leiðsögn verður um sýninguna föstudaginn 22. september kl. 12.30. Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.
GAMMA er aðalstuðningsaðili sýningarinnar.