Sigurður Trausti Traustason og Markús Þór Andrésson hafa verið ráðnir deildarstjórar hjá Listasafni Reykjavíkur

Sigurður Trausti Traustason og Markús Þór Andrésson

Sigurður Trausti hefur verið ráðinn deildarstjóri safneignar og rannsókna og Markús Þór deildarstjóri sýninga og miðlunar. Þeir hefja störf 1. janúar 2017. Í haust samþykkti menningar og ferðamálaráð nýtt innra skipurit Listasafns Reykjavíkur. Það felur í sér endurskoðað hlutverk og sameiningu deilda innan safnsins. Liður í innleiðingu nýs skipurits var ráðning tveggja nýrra deildarstjóra.

Síðastliðin þrjú ár hefur Sigurður Trausti gegnt stöðu fagstjóra Rekstrarfélags Sarps, miðlægs gagnagrunns fjölmargra íslenskra safna. Hann er með M.A. gráðu í safnafræðum frá University of Leicester í Englandi, en áður hafði hann lokið BA gráðu í sagnfræði við Háskóla Íslands og í Margmiðlunarhönnun frá Copenhagen Technical Academy. Markús Þór hefur fjölbreytta reynslu á sviði sýninga og miðlunar. Undanfarin ár hefur hann starfað sjálfstætt sem sýningarstjóri og unnið fyrir innlend og erlend söfn og sýningastaði. Hann er með M.A. gráðu í sýningarstjórn frá Bard College í Bandaríkjunum, en áður hafði hann lokið B.A. gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands.

Sem fagstjóri Rekstrarfélags Sarps hefur Sigurður Trausti borið ábyrgð á gæðastjórnun skráninga og tæknimála, kennslu og verkefnastjórnun á öllu er lítur að kerfinu sjálfu auk þess að halda fyrirlestra um skráningar og miðlunarmál í gegnum gagnagrunn safna. Áður starfaði sem Sigurður Trausti sem sérfræðingur og verkefnastjóri, við safngæslu og vefstjórn hjá Listasafni Einars Jónssonar en lokaritgerð hans í sagnfræði fjallaði um Einar Jónsson myndhöggvara og standmyndir hans á almannafæri. Honum hafa verið falin fjölmörg önnur verkefni og má þar nefna aðkomu hans að sýningunni Poster Art 150 í London Transport Museum og trúnaðrastörf fyrir Fræðagarð og Félag íslenskra safnafræðinga.

Á meðal sýninga sem Markús Þór hefur stýrt á síðustu árum má nefna Ríki – flóra, fána, fabúla í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi og Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Hann hefur jafnframt verið sýningastjóri tvíæringsins í Moss og íslenska skálans í Feneyjum. Markús hefur skrifað fjölda greina um verk íslenskra listamanna bæði í sýningaskrár og tímarit auk þess sem hann hefur stýrt útgáfum, sinnt kennslu og fyrirlestrahaldi sem og heimildamyndagerð. Honum hafa verið falin trúnaðarstörf og má þar meðal annars nefna að hann hefur verið skipaður í stjórn Listaháskóla Íslands og setið í stjórn Listfræðafélags Íslands.

Samtals bárust 23 umsóknir um stöðurnar. Ráðgjafafyrirtækið Capacent vann úr umsóknunum og hafði umsjón með úrvinnslu. Stöðurnar voru auglýstar 27. ágúst sl. í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og á heimasíðum Reykjavíkurborgar og Capacent.