Skúlptúr og nánd: Síðustu sýningardagar

Skúlptúr og nánd: Síðustu sýningardagar

Síðasti dagur sýningarinnar Skúlptúr og nánd í Ásmundarsafni með verkum Sigurðar Guðmundssonar er sunnudagurinn 31. mars. Sýningin er hluti af áherslu Listasafns Reykjavíkur árið 2019 á list í almannarými.

Sigurður Guðmundsson (1942) lagði stund á listnám hér á landi á árunum 1960-1963 en hélt síðan til framhaldsnáms í Hollandi. Hann býr og starfar í Reykjavík, Kína og Hollandi.

Víða er að finna stórar höggmyndir eftir Sigurð í opnu rými, bæði á Norðurlöndum og Mið-Evrópu. Sigurður hefur unnið fjölmargar samkeppnir og má þar nefna samkeppni um útilistaverk við Barnaspítala Hringsins og útilistaverk á vegum Reykjavíkurborgar í tilefni aldamótanna.

Áhersla  Sigurðar er á hið skáldlega með heimspekilegu ívafi. Hann vinnur í fjölda miðla, ljósmyndir, höggmyndir, teikningar, grafík og gjörninga, en hefur líka samið tónverk og skrifað bækur.