Sýningaopnun – Ásgerður Búadóttir: Lífsfletir og Jóhannes S. Kjarval: Að utan
Laugardag 22. febrúar kl. 16.00 verða opnaðar sýningar á verkum myndlistarmannanna Ásgerðar Búadóttur og Jóhannesar S. Kjarvals í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. Sýningarstjórar eru Aldís Arnardóttir listfræðingur og Edda Halldórsdóttir, verkefnastjóri skráningar hjá Listasafni Reykjavíkur.
Sýningarnar nefnast Lífsfletir – sem er vísun í verk Ásgerðar – Sjö lífsfletir, og síðan Að utan, en á Kjarvalssýningunni eru verk sem listamaðurinn vann erlendis.
Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri ávarpar gesti við opnun sýningarinnar.
Ásgerður Búadóttir (1920-2014) var brautryðjandi á sviði vefjarlistar á Íslandi og í verkum hennar sameinast aldagamlar aðferðir handverksins og frjáls sköpun nútímamyndlistar. Efniviður Ásgerðar var fyrst og fremst íslensk ull en á áttunda áratug síðustu aldar vöktu glæsilegar veftir hennar verðskuldaða athygli fyrir frumlega efnisnotkun þar sem ull og hrosshár mynda ofna heild og skapa ríka efniskennd.
Ásgerður stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum og Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Hún var sjálfmenntuð á sviði vefjarlistar að undanskildu stuttu kvöldnámskeiði. Hún var frá upphafi virkur þátttakandi í íslensku og norrænu myndlistarlífi. Máttur teikningarinnar var ávallt mikilvæg undirstaða í verkum Ásgerðar og rík efniskennd og öguð vinnubrögð einkenna allt höfundarverk hennar.
Ásgerður vann til gullverðlauna árið 1956 á alþjóðlegri list- og handverkssýningu í München sem markaði upphaf að glæsilegum og áhrifamiklum ferli hennar. Titill sýningarinnar vísar til verksins Sjö lífsfletir sem Ásgerður óf í minningu sjö merkra listakvenna sem allar voru áberandi á kvennaáratugnum og féllu frá með nokkurra ára millibili.
Á sýningunni Að utan eru verk sem Kjarval vann á árunum 1911 til 1928 og eiga það sameiginlegt að vera öll gerð utan landsteina Íslands og gefa innsýn í mótunarár Kjarvals.
Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) ferðaðist víða um lönd og vann verk á erlendri grundu þar sem hann lagði mikið upp úr því að kynnast lykilverkum í alþjóðlegri menningarsögu af eigin raun og kynna sér nýjustu hræringar í samtímalist.
Árið 1911 rættist langþráður draumur þegar Kjarval hélt í sína fyrstu för til útlanda og lá leiðin til London. Þar dvaldi hann og varð fyrir miklum innblæstri, sótti söfn, las mikið og kynntist því sem var efst á baugi í stórborginni.
Frá London hélt Kjarval til Kaupmannahafnar og var þar búsettur fram til ársins 1922. Hann stundaði nám í Det Tekniske Selskabs Skole og Konunglega listaháskólanum og hlaut þar þá faglegu listmenntun sem hann hafði lengi óskað sér.
Í Danmörku vann Kjarval mörg af sínum þekktari verkum, svo sem Íslenskir listamenn við skilningstréið og Skógarhöllina, sem bæði eru í safneign Listasafns Íslands, auk ýmissa verka af dönskum gróðri, skógum og strætum.
Árið 1920 fékk Kjarval styrk á fjárlögum til Rómarferðar og hélt þangað ásamt Tove konu sinni á vordögum og ferðaðist um Ítalíu fram á haust. Auk Rómar heimsótti hann meðal annars borgirnar Flórens, Tivoli, Amalfi og Ravello. Hann vann mikið á Ítalíu og kom aftur til Kaupmannahafnar með fjölda verka, aðallega vatnslita- og pensilteikningar.
Verkin sem Kjarval vann á Ítalíu og eftir að þaðan var komið bera ferðinni skýr merki en frá þeim tíma eru verkin Divina Comedia og Pantheon auk þess sem hann vann margar myndir af ítölsku borgarlandslagi og mannamyndir.
Kjarval flutti til Íslands árið 1922 en í janúar 1928 fór hann í langþráða ferð til Frakklands og var þar í tæpt hálft ár. Hann hafði vinnustofu í París og dvaldi einnig í Fontainbleau skógi utan við borgina. Þar vann Kjarval röð franskra skógarmynda. Hann er sagður hafa málað fimmtán myndir í Frakklandi og komið með fjórtán þeirra til Íslands.