Sýningaopnun, styrkur úr listasjóði og tilkynnt um listamenn í D-sal 2019
Erró: Svart og hvítt, D34 María Dalberg: Suð, Listasjóður Guðmundu S. Kristinsdóttur, fjórir listamenn í D-sal 2019
Ný sýning á verkum Errós, Svart og hvítt, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, laugardag 13. október kl. 15.00. Listamaðurinn verður viðstaddur opnunina og mun afhenda styrk úr listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi opnar sýninguna. Sýningarstjóri er Danielle Kvaran.
Við sama tækifæri verður opnuð sýning á verkum Maríu Dalberg í D-sal Hafnarhússins. María er 34. listamaðurinn til þess að sýna í sýningaröðinni. Edda Halldórsdóttir er sýningarstjóri. Einnig verður tilkynnt hvaða fjórir listamenn hafa verið valdir til að sýna í D-sal á næsta ári, en Listsasafni Reykjavíkur bárust umsóknir frá yfir 130 listamönnum.
Á sýningunni Svart og hvítt gefur að líta um þrjátíu ný og nýleg svarthvít málverk eftir Erró. Verkin, sem flest koma beint frá vinnustofu hans í París, vitna enn og aftur um sköpunarkraft og uppfinningasemi listamannsins. Í þessum verkum blandar hann leikandi saman sögulegum persónum og manga- og teiknimyndasögufígúrum. Myndefnið er fjölbreytt og óhætt að segja að flestum hugðarefnum listamannsins séu gerð skil. Margir þekkja stórar og litríkar myndir Errós - en færri tengja hann við myndir í svarthvítu. Á löngum ferli hefur hann þó öðru hverju málað myndir, þar af margar mjög stórar, í svarthvítu. Erró er fæddur árið 1932 og er tvímælalaust einn þekktasti samtímalistamaður Íslendinga. Listasafn Reykjavíkur varðveitir fjölda verka eftir listamanninn og eru árlega sýningar á verkum hans í Hafnarhúsi.
Styrkur úr listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur er veittur framúrskarandi listakonu ár hvert og er honum ætlað að efla og styrkja listsköpun kvenna. Erró stofnaði sjóðinn til minningar um móðursystur sína, Guðmundu. Stjórn sjóðsins skipa safnstjórar Listasafns Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir, Listasafns Íslands, Harpa Þórsdóttir og Listasafnsins á Akureyri, Hlynur Hallsson. Þetta er í 19. sinn sem styrkurinn er veittur. Þær listakonur sem áður hafa hlotið styrk úr sjóðnum eru Elín Hansdóttir, Hildigunnur Birgisdóttir, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Ósk Vilhjálmsdóttir, Ólöf Nordal, Finna Birna Steinsson, Katrín Sigurðardóttir, Gabríela Friðriksdóttir, Sara Björnsdóttir, Þóra Þórisdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hulda Stefánsdóttir, Margrét H. Blöndal, Sara Riel, Þórdís Aðalsteinsdóttir, Guðný Rós Ingimarsdóttir og Ásdís Sif Gunnarsdóttir.
María Dalberg er 34. listamaðurinn sem sýnir í sýningaröð D-salar sem hóf göngu sína árið 2007. Markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna í fyrsta sinn að einkasýningu í opinberu listasafni og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins.
María er fædd árið 1983 og útskrifaðist með M.A.-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Verk hennar hafa verið sýnd á fjölda samsýninga og kvikmyndahátíða víða í Evrópu og í Ameríku. Hún hefur unnið með vídeóinnsetningar, hljóð, gjörninga, ljósmyndir, teikningar og textaskrif. Tilraunir með efni og efniskennd í vídeóverkum og öðrum miðlum er stór þáttur í listsköpun hennar.