Sýningarlok: Þar sem mörkin liggja
Sýningunni Þar sem mörkin liggja með verkum Helga Gíslasonar lýkur sunnudaginn 3. nóvember í Ásmundarsafni. Sýningin er sú fjórða í röð einkasýninga fimm listamanna sem eru höfundar listaverka í borginni.
Helgi Gíslason (f. 1947) á allmörg listaverk í almannarými á höfuðborgarsvæðinu, víða um landið og erlendis. Hér á sýningunni má sjá verk sem kallast á við útilistaverk hans frá ýmsum tímabilum. Helgi hefur á löngum ferli unnið verk sín í margskonar efni, dregið fram eiginleika hvers um sig og fengið til að lúta vilja sínum. Málmur, tré, gler, gifs og textíll leika í höndum hans. Verkin eru formföst en túlkun þeirra fljótandi, lifandi og opin. Þar er tíminn meitill sem breytir túlkun verkanna og hver kynslóð gengur að þeim sem óskrifuðu blaði.
Helgi fæst í verkum sínum við manneskjuna og tilvist hennar. Efnisval og formgerð leggja grunn að hughrifum og túlkun sem endurspeglar tilfinningaskalann. Opinber verk Helga skiptast annars vegar í pöntuð verk og minnisvarða og hins vegar þau sem spretta að öllu leyti upp úr hans hugarheimi. Útilistaverkin og önnur listsköpun hans eru nátengd, allt er á einhvern hátt afleiðing þess sem á undan hefur komið og vex úr þeim hugmyndaheimi sem Helgi vinnur í hverju sinni. Í listinni leitar hann að því hvar mörkin liggja. Bæði mörk hans sem listamanns en einnig verkanna.