Sýningaropnun - Anna Guðjónsdóttir: Hluti í stað heildar
Fimmtudag, 21. febrúar kl. 17.00 verður opnuð sýning á verkum Önnu Guðjónsdóttur, Hluti í stað heildar, í A-sal Hafnarhússins.
Anna Guðjónsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík en er nú búsett í Hamborg í Þýskalandi. Þar hefur hún átt farsælan myndlistarferil, haldið stórar sýningar og unnið til verðlauna fyrir þær.
Í A-sal Hafnarhússins sýnir Anna nýtt verk í mörgum hlutum sem tekur yfir allan sýningarsalinn. Listsköpun Önnu á rætur í málverkahefðinni þar sem tekist er á við sígildar spurningar um mörk tvívíðs, málaðs flatar og þrívíðs, raunverulegs rýmis – mörk frummyndar og eftirmyndar. Anna kallar fram hugmyndir sínar með tilvísun í landslag og byggingarlist ásamt því að styðjast við form sýningarskápa. Á sýningunni Hluti í stað heildar umbreytist sýningarsalurinn í nokkurs konar sýningarskáp sem gestir ganga inn í, umvafðir málverkum sem spegla rýmið sjálft og opna jafnframt inn í aðra og ófyrirséða heima eins og spegillinn hennar Lísu í Undralandi sem gaf henni færi á að kynnast veröldinni fyrir handan og koma til baka inn í raunheima áhorfandans. Þetta atriði er ómissandi fyrir líf verkanna, því án hlutdeildar áhorfandans er myndlistarverk bara samansafn af efni.
Auk lakkverka og stórra járnramma sem mynda áðurnefnda sýningarskápa sýnir Anna verk sem hún hefur málað beint á vegg í salnum.
Anna nam við höggmyndadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og fór svo til Þýskalands í myndlistarnám við Listaháskóla Hamborgar þaðan sem hún brautskráðist árið 1992.
Anna verður með leiðsögn um sýningu sína sunnudag 23. febrúar kl. 15.00 og jafnfram verður hún með opinn fyrirlestur í Listaháskóla Íslands föstudaginn 8. mars kl. 13.00.
Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.
Undanfarin ár hefur listamönnum verið boðið að takast á við A-sal Hafnarhússins með nýjum innsetningum. Arkítektúr salarins einkennist af voldugum súlum hins gamla vöruhúss og stórum gluggum sem fylla upp í gömlu hleðsludyrnar. Skemmst er að minnast sýninga Ingólfs Arnarssonar, Jarðhæð (2018), Ilmar Stefánsdóttur, Panik (2017) og Moniku Grzymala, Hugboð (2016). Allar kölluðust sýningarnar með ólíkum hætti á við umhverfið. Í kjölfar sýningar Önnu Guðjónsdóttur sýnir Finnbogi Pétursson nýja innsetningu í sama sal.