Sýningaropnun − EITTHVAÐ úr ENGU: Myndheimur Magnúsar Pálssonar

Sýningaropnun − EITTHVAÐ úr ENGU: Myndheimur Magnúsar Pálssonar

Sýningaropnun í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, laugardag 28. september kl. 16.00.

EITTHVAÐ úr ENGU
Myndheimur Magnúsar Pálssonar
28.09.2019-12.01.2020

Listasafn Reykjavíkur kynnir stóra yfirlitssýningu á verkum Magnúsar Pálssonar myndlistarmanns í Hafnarhúsi.

Magnús hefur komið víða við á sínum langa ferli og markað djúp spor. Hann var lykilmaður í hinum miklu breytingum sem urðu á vettvangi myndlistar á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Við endurskoðun á eðli listsköpunar varð til nýtt myndmál sem byggðist á gagnrýnni afstöðu til listasögunnar fram að því en opnaði um leið nýjar leiðir til framtíðar. Magnús prófaði sig áfram með verk sem að sumu leyti voru í anda flúxus, pop og konseptlistar en eru að sama skapi algjörlega einstök. Magnús er ótvíræður frumkvöðull gjörningalistar og hefur sem kennari haft mikil áhrif á kynslóðir listamanna.

Verk Magnúsar Pálssonar verða til sýnis í fimm sýningarsölum Hafnarhússins og teygja sig einnig út á ganga hússins og undir bert loft. Meðal verka má nefna Í minningu Njálsbrennu, Sekúndurnar þar til Sikorskyþyrlan snertir og Gengið á vatni. Sýningin er unnin í nánu samstarfi við Magnús og fjölskyldu hans sem lána fjölmörg verk á sýninguna.

Magnús er fæddur árið 1929 og fagnar 90 ára afmæli á árinu. Hann hefur verið einn áhrifamesti listamaður landsins í áratugi og hefur alla tíð starfað á mörkum leikhúss, ritlistar, tónlistar og myndlistar.

Við opnun sýningarinnar í Hafnarhúsi mun Nýlókórinn troða upp, en Magnús stofnaði kórinn árið 2003. Hann hefur samið mörg verk sérstaklega fyrir kórinn og er hann órjúfanlegur þáttur verka Magnúsar síðustu ár. Verkið sem Nýlókórinn flytur við opnunina er hluti af innsetningu sem er í eigu Listasafns Reykjavíkur og heitir Óður til bílsins.

Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, opnar sýninguna.

Sýningarstjórar eru Markús Þór Andrésson og Sigurður Trausti Traustason.

Árið 2013 beindi Listasafn Reykjavíkur sjónum að gjörningum Magnúsar Pálssonar 1980-2013 á sýningunni Lúðurhljómur í skókassa sem unnin var í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík. Að þessu sinni, á sýningunni EITTHVAÐ úr ENGU, er áherslan á efnislegan myndheim listamannsins. Valin eru saman verk frá því snemma á sjöunda áratugnum til samtímans sem endurspegla þá frjósömu hugsun sem Magnús hefur alla tíð sýnt í höggmyndum, bókverkum og tvívíðum verkum. Á sýningunni eru verk úr safneign, verk sem fengin eru að láni víða að sem og úr eigu listamannsins.

Þess má geta að Listasafn Reykjavíkur hefur til varðveislu heimildasafn Magnúsar Pálssonar en hann hefur haldið til haga miklu efni á sex áratuga ferli. Efnið er varðveitt í á þriðja hundrað skjalakassa sem eru ómetanleg heimild um listsköpun Magnúsar og sterkur grunnur undir sýninguna EITTHVAÐ úr ENGU.