Sýningaropnun, gjörningur og opnunarhóf RIFF

Sýningaropnun, gjörningur og opnunarhóf RIFF

Sýning Pierre Coulibeuf, Tvöföldun, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi fimmtudag 28. september kl. 20.00. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, opnar sýninguna. Við sama tækifæri verður Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, sett í Hafnarhúsinu.
 
Vegna sýningaskipta verður Hafnarhúsið lokað dagana 25., 26., 27. og 28. september. 

Á sýningunni eru þrjú myndbandsverk eftir Coulibeuf, The Panic Monkey (2017), Dédale (2009) og Delectatio morosa (1988/2006). Þau eru til sýnis á annarri hæð Hafnarhússins þar sem mynd og hljóð kallast á með seyðandi hætti í umfangsmiklum innsetningum. Nýjasta verkið var unnið í samstarfi við dansarana Ernu Ómarsdóttur og Lovísu Ósk Gunnarsdóttur og skotið í Hafnarhúsinu. Erna og Lovísa Ósk flytja dansgjörning á opnunarkvöldinu.

Kvikmyndagerðar- og myndlistarmaðurinn Pierre Coulibeuf er fæddur í Frakklandi árið 1949. Síðustu tuttugu ár hefur hann stýrt yfir þrjátíu myndum, ýmist stuttmyndum eða kvikmyndum í fullri lengd. Hann byggir verk sín á ýmsum greinum samtímalistar, svo sem málverki, kóreógrafíu, gjörningi, ljósmyndun og bókmenntum.

Áður hefur hann unnið verk innblásin af og í samstarfi við Pierre Klossowski, Michelangelo Pistoletto, Marinu Abramovic, Michel Butor, Jean-Marc Bustamante, Jan Fabre, Meg Stuart og Angelin Preljocaj. Sýningin er uppi á sama tíma og RIFF kvikmyndahátíðin, þar sem valdar kvikmyndir Coulibeufs verða á dagskrá.

RIFF opnunarhóf
Samhliða opnun sýningarinnar Tvöföldun verður opnunarhóf RIFF haldið í Hafnarhúsinu. Gestgjafi verður Jóhann Alfreð Kristinsson. Leikkonan Unnur Ösp Stefánsdóttir flytur árlega hátíðargusu kvikmyndargerðarmanna og Styrmir Hansson þeytir skífum frameftir kvöldi.

Í samstarfi við RIFF verður kvikmyndin Union of the North eftir Matthew Barney, Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson sýnd í Hafnarhúsinu föstudaginn 29. september kl. 15.45. Myndin er hluti af FÓRN - listahátíð íslenska dansflokksins.