Sýningaropnun í D-sal: Heildin er alltaf minni en hlutar hennar
Sýningin Heildin er alltaf minni en hlutar hennar eftir Pál Hauk Björnsson opnar fimmtudaginn 25. janúar kl. 17.00 í D-sal, Hafnarhúsi. Páll Haukur er 32. listamaðurinn sem sýnir í sýningaröð D-salar sem hóf göngu sína árið 2007.
Einhverskonar landslag er að finna á sýningunni, mótað af mismunandi skúlptúrum. En hvað er skúlptúr? Hvað myndar mörk staks hlutar og samband hans við annað?
Páll Haukur hefur áhuga á því að skoða þessar spurningar í gegnum skúlptúrgerð. Hann notar kyrr- og hreyfimyndir, hluti sem eru hverfulir, oftast úr náttúrunni, og varanleg, manngerð efni.
Páll Haukur nálgast efnivið sinn með því að rekja upp og færa úr skorðum skilgreinda merkingu sem hlutirnir hafa öðlast. Hann skoðar mörk lífleysis þeirra í leit að tengslum eða andstöðu. Hann hagræðir hlutum og færir þá frá hversdagsleika þeirra, og kemur þeim þannig fyrir að eigindleiki þeirra verður óljós. Hlutinn er áminning um breytingar sem greinast ekki í augnablikinu en óma engu að síður í ólýsanlegum en auðþekkjanlegum stað í tungumálinu.
Páll Haukur Björnsson (1981) útskrifaðist með BFA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2008 og lauk meistaragráðu frá California Institute of the Arts árið 2013. Hann hefur sýnt verk og gjörninga víða, á einka- og samsýningum á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Páll Haukur býr og starfar í Reykjavík.
Markmið sýningarraðirnnar í D-sal er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna í fyrsta sinn að einkasýningu í opinberu listasafni og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins.