Sýningaropnun: Innrás II – Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter
Sýningin Innrás II eftir Hrafnhildi Arnardóttur / Shoplifter verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Ásmundarsafni, laugardag 21. apríl kl. 16.00.
Annar innrásarliðinn á sýningunni List fyrir fólkið í Ásmundarsafni er Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter. Hrafnhildur er þekkt fyrir litríka og kraftmikla nálgun við viðfangsefni sín og er sýningin í Ásmundarsafni þar engin undantekning. Með sínum sérstæða hætti tekst hún á við verk myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar og bygginguna sjálfa.
Hrafnhildur Arnardóttir (f. 1969) býr og starfar í New York og hefur sýnt verk sín víðs vegar um heiminn, má þar nefna nýlega röð viðamikilla innsetninga sem bera nafnið Nervescape sem meðal annars voru sýndar á Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist – Momentum 8, í Moss, Noregi árið 2015 í Samtímalistasafni Queensland í Brisbane, Ástralíu árið 2016 og í Fílharmóníunni í Los Angeles, Bandaríkjunum í fyrra. Hún er einkum þekkt fyrir stórar og litríkar innsetningar sem unnar eru úr hári og önnur verk þar sem hár er í aðalhlutverki. Verkin eru full andstæðna þar sem fínleg efnisnotkun og handverk mæta ofhlæði og afkáraleika. Hrafnhildur sem starfar undir listamannsnafninu Shoplifter hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum öðrum, m.a. hefur hún hannað klæðnað fyrir Björk Guðmundsdóttur og fatnað fyrir alþjóðlega tískufyrirtækið & Other Stories.
Innrás Hrafnhildar í Ásmundarsafn byggir á notkun ljóss, lita og skugga sem tengja saman hennar eigin verk og Ásmundar. Líkt og Ásmundur Sveinsson er listakonan óhrædd við að kanna möguleika efnisins. Eins og í eldri verkum dansar hún á barmi hins kjánalega þar sem fyndni og fegurð tvinnast saman.
Sýningarstjóri er Sigurður Trausti Traustason. Elsa Yeoman, formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, opnar sýninguna.
Sunnudag 22. apríl kl. 14.00 verður Hrafnhildur / Shoplifter með leiðsögn um sýninguna.
Fjórar INNRÁSIR verða gerðar inn í sýninguna List fyrir fólkið á árinu 2018, þar sem völdum verkum Ásmundar Sveinssonar er skipt út fyrir verk starfandi listamanna. Fyrstu innrásinni er nú lokið, en þar sýndi Guðmundur Thoroddsen verk sín meðal verka Ásmundar. Sýning Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter stendur til 12. ágúst en þá tekur við Matthías Rúnar Sigurðsson og að lokum Margrét Helga Sesseljudóttir. Öll vinna þau skúlptúra í ólík efni og veita verk þeirra áhugaverða sýn á þróun þrívíðrar myndlistar, efnisval og viðfangsefni.