Sýningaropnun: Leiðangur eftir Önnu Líndal
Yfirlitssýning á verkum myndlistarkonunnar Önnu Líndal, Leiðangur, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum, laugardag 30. september kl. 16.00.
Verkin á sýningunni spanna tæplega þrjátíu ára feril Önnu en sýningin er hluti af markmiðum Listasafns Reykjavíkur um að kynna feril mikilsverðra starfandi listamanna.
Anna hefur á ferli sínum unnið í fjölbreytta miðla og tekist á við fjölbreytt viðfangsefni. Í myndlist hennar mætast ólíkir þræðir hugmynda og úrvinnslu sem byggja á tveimur megin viðfangsefnum: annars vegar togstreitu á milli einkalífs og utanaðkomandi væntinga, og hins vegar löngun mannsins til að skilja og greina náttúruna í gegnum mælingar.
Togstreitan á milli einkalífs og samfélagslegrar stöðu er einkum sýnileg í verkum frá fyrri hluta ferilsins þegar hún afmarkaði efnisval við það sem var til staðar inni á heimilinu og gerði heimilið að kjörlendi sköpunar. Á síðari árum hefur Anna tekist á við þrá mannsins til að skilja náttúruna með verkum sem hún byggir að miklu leyti á eigin reynslu af því að dvelja í óbyggðum og taka þátt í rannsóknarleiðöngrum vísindamanna.
Á sýningunni á Kjarvalsstöðum er nýtt viðamikið verk sem ber titil sýningarinnar Leiðangur. Í því tengist saman áhugi Önnu frá upphafi ferilsins á stöðu kvenna og kynbundum vinnuaðferðum og síðari tíma áhugi á mælingum náttúrunnar, dvölinni í náttúrunni og tengslum vísinda og lista.
Í tengslum við sýninguna gefur Listasafn Reykjavíkur út veglega sýningarskrá. Þar fjallar Guðrún Erla Geirsdóttir um femínísk viðfangsefni í verkum Önnu, William Fox ritar um tengsl verka hennar við þrá mannsins til að skilgreina náttúruna og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar um það hvernig aðferðafræði rannsóknarlistar birtist í verkunum. Rödd listakonunnar sjálfrar hljómar síðan í viðtali sem Bjarki Bragason tók við hana.
Sýningarstjóri og ritstjóri sýningarskrár er Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur. Elsa Yeoman, formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur opnar sýninguna.
Anna Líndal (f. 1957) lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1986 og útskrifaðist með meistaragráðu frá Slade listaháskólann í London árið 1990. Veturinn 2011 – 12 stundaði hún rannsóknartengt nám í við Sint Lucas listaháskólann í Antwerpen í Belgíu. Verk hennar hafa verið sýnd á öllum helstu sýningarstöðum hér á landi en einnig alþjóðlega, meðal annars bæði á tvíæringunum í Istanbúl og Seoul.
Dagskrá
Sunnudag 8. október kl. 14.00
Leiðsögn með listamanni og sýningarstjóra
Sunnudag 29. október kl. 14.00
Leiðsögn með sýningarstjóra og Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur
Sunnudag 12. nóvember kl. 14.00
Leiðsögn með listamanni og Bjarka Bragasyni
Sunnudag 19. nóvember kl. 14.00
Leiðsögn með sýningarstjóra og Guðrúnu Erlu Geirsdóttir