Vegglistaverk á Réttarholtsskóla eftir Elínu Hansdóttur
Stórt vegglistaverk eftir Elínu Hansdóttur myndlistarmann er að fæðast á norðurhlið Réttarholtsskóla við Réttarholtsveg. Gert er ráð fyrir að verkið verði tilbúið í þessari viku.
Verkinu má lýsa á þann hátt að fyrst birtast nokkrar beinar gular línur lóðrétt niður gráan flötinn, þá smeygir sér inn lítil blá kúla og í framhaldi af henni sveigjast línurnar til meira og meira. Elín segir að túlka megi verkið á þann hátt að ein lítil rödd geti haft mikil áhrif. Verkið er unnið í samvinnu við Skiltamálun Reykjavíkur og segir Elín ómetanlegt að hafa slíka fagmenn sér við hlið.
Samhliða því að vinna að uppsetningu verksins hefur Elín kynnt sig og verk sín fyrir nemendum og starfsfólki skólans. Þetta er fyrsta veggverk Elínar í opinberu rými og segir hún afar ánægjulegt að hafa fengið þetta tækifæri. Elín var valin til verksins af fulltrúum frá Listasafni Reykjavíkur, rétthafa arkitekts Réttarholtsskóla og fulltrúa frá skólanum sjálfum. Hugmyndin að því að mála vegglistaverk á skólabygginguna kom frá íbúum hverfisins í gegnum samráðsvettvanginn Betri Reykjavík.
Elín Hansdóttir er fædd árið 1980. Hún lauk myndlistarnámi frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og framhaldsnámi frá Berlín árið 2006. Elín hlaut nýverið viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur, en markmið sjóðsins er að styrkja íslenskar listakonur.