Skúlptúr
Skúlptúr (Sculpture)
Skúlptúr er þrívítt myndlistarverk, ólíkt tvívíðum verkum eins og málverkum. Orðið kemur upprunalega úr latínu og þýðir „að höggva“ enda er líka til íslenska orðið „höggmynd“ en skúlptúr er meira notað. Samtímalistamenn vinna skúlptúra úr ýmsum efnum, tré, gifs, steinn og brons eru hefðbundin efni sem við sjáum í listasögunni en í dag nota listamenn plast, lífræn efni og hvað sem þeim dettur í hug. Skúlptúrar geta bæði verið stórir og litlir, þeir geta staðið á gólfi eða á stöpli, en grunnhugmyndin er að hægt sé að skoða þá frá öllum sjónarhornum. Það krefst þess að áhorfandinn hreyfi sig í kringum verkið þegar hann virðir það fyrir sér, ólíkt tvívíðum verkum sem oftast er aðeins hægt að skoða frá einu sjónarhorni.
Dæmi úr safneign:
Matthías Rúnar býr til þrívíð verk, skúlptúra, úr grjóti. Hann styðst við sígildar aðferðir myndhöggvarans og notar verkfæri eins og hamar og meitil, en líka nútímaleg rafmagnsverkfæri. Það er tímafrekt og erfitt að höggva í svo hart efni. Viðfangsefni Matthíasar sýna oft nútímalega nálgun við sögulega arfleið og tilvísanir í þjóðsögur, ímyndaðar verur og skrímsli. Skúlptúrinn Köttur III sýnir kött með langar klær sem heldur á ungviði. Stíllinn á kettinum er einhvers staðar á milli nútímalegra tölvuleikja og skurðgoða fornra þjóða.
Mynd: Matthías Rúnar Sigurðsson, Köttur III, 2018