Vídeóverk

Vídeóverk (Video work)
Vídeó er listform sem kom fram í kringum 1960. Orðið kemur úr latínu og þýðir „ég horfi“. Það er notað alþjóðlega í listheiminum en einnig hefur verið notast við íslenska orðið „myndbandslist“. Vídeóverk fela í sér notkun vídeóupptaka og byggja því á hreyfimyndum. Þau geta bæði verið með eða án hljóðs. Vídeóverk eru stundum sýnd á skjá og stundum varpað inn í rými og má þá tala um vídeóinnsetningu. Oft eru óljós mörk milli vídeólistar, kvikmyndagerðar og heimildamyndagerðar.  

Dæmi úr safneign:  
Í vídeóverki Hreins Friðfinnssonar má sjá listamanninn Kristin E. Hrafnsson húla með húlahring. Hreinn hefur gaman af því að skapa verk sem sýna með óvæntum hætti ýmsa eðlisfræðilega virkni. Hér er hann til dæmis að skoða miðflóttaaflið sem er lykilatriði í hreyfingu himintunglanna. Hreinn er þekktur fyrir ljóðræn og leikandi verk. Stundum setur hann hugmyndir sínar fram í vídeóverkum, stundum ljósmyndum eða skúlptúrum, allt eftir hvað hentar hugmyndinni hverju sinni. Hreinn rannsakar skilning okkar á tímanum og heiminn sem umlykur okkur með fjölbreyttum verkum. 
 
Mynd: Hreinn Friðfinnsson, Mynd af myndhöggvara sem höggmynd, 2014

Vídeó: VÍDEÓVERK