Hvað á Listasafn Reykjavíkur mörg verk?

Hvað á Listasafn Reykjavíkur mörg verk? 
Skráð listaverk í safneign Listasafns Reykjavíkur eru 17.585 (lok árs 2021). Það er því aldrei nema pínulítið brot af safneigninni til sýnis í einu. Og hún er alltaf að stækka. Safnið kaupir árlega ný verk auk þess sem það fær stundum gjafir frá listamönnum, velunnurum og öðrum. Sérstök innkaupanefnd tekur fyrir öll innkaup og gjafir og metur hvernig og hvort verkin eigi erindi í safneignina. Listaverkin eru af ýmsum toga; olíumálverk, skúlptúrar, innsetningar, vídeóverk, teikningar og fleira. Listasafn getur ekki losað verk úr safni sínu, það má til dæmis aldrei selja verkin, þannið að það þarf að vanda valið við hvað fer inn í safneignina. Af fjölda skráðra verka í safneign Listasafn Reykjavíkur er nokkuð um skissur og minni verk. Þar eru eru sérsöfn þriggja listamanna; Kjarvals, Ásmundar Sveinssonar og Errós þar sem finna má bæði fullkláruð verk en líka fjölmargt annað sem er mikilvægt til rannsókna. Síðan er í safninu fullt af verkum eftir aðra listamenn og tæplega 200 útilistaverk sem finna má í borgarlandinu.

Mynd: Jóhannes S. Kjarval, Dyrfjöll, 1927