Hvernig virkar listasafn?
Hvernig virkar listasafn?
Eins og nafnið gefur til kynna er hlutverk listasafns að safna myndlist.
Listasafn getur verið í opinberri eigu (Listasafn Íslands er í eigu ríkisins, Listasafn Reykjavíkur er í eigu Reykjavíkurborgar) eða í einkaeigu (Nýlistasafnið er sameign listamanna sem að því standa). Til þess að uppfylla alþjóðlegar kröfur um starfsemi safna fara listasöfn eftir sérstökum reglum Alþjóðaráðs safna (ICOM). Auk þess starfa söfn eftir samþykktum og lögum sem um þau eru sett. Listasafn Reykjavíkur hefur til dæmis nokkur meginhlutverk: Safna, skrá og varðveita úrval íslenskrar myndlistar sem endurspeglar strauma og stefnur á hverjum tíma; rannsaka íslenska myndlist, t.d. með sýningum og bókaútgáfu; hafa umsjón með listaverkum í eigu borgarinnar í almannarými; gera safngestum kleift að fylgjast með því sem er að gerjast í myndlist.
Í listasöfnum starfa fjölmargir einstaklingar með ólík hlutverk; safnkennarar, listfræðingar, tæknimenn, sýningarstjórar, kynningarfulltrúar, safnstjórar, húsverðir, fjármálasérfræðingar, fólk í móttöku og gæslu, forverðir og ýmsir fleiri.