Listamaður eða ekki?
Hvernig veit maður hvort maður er listamaður eða ekki?
Sumum finnst þeir vera fæddir listamenn og aðrir taka ákvörðun um að verða listamenn einhvern tímann á lífsleiðinni. Til að verða listamaður þarf maður að líkindum að vera áhugasamur um listasöguna og listsköpun annarra. Myndlist snýst að miklu leyti um samtal við söguna, við það sem aðrir listamenn hafa gert og eru að gera. Þannig staðsetur listamaður sig í stærra samhengi og finnur sína rödd. Listamaður finnur fyrir löngun til að skapa, hvort sem það er í höndunum eða fylgja eftir hugmyndum með öðrum hætti. Flestir listamenn læra myndlist í listaháskólum þar sem hægt er að prófa ýmsar aðferðir og finna leiðir sem henta hverjum og einum. Aðrir listamenn fara ekki í listnám en finna sína leið sjálfir. Til að þroskast sem listamaður tekur maður þátt í listasenunni, sýnir verk sín og á í samtali við jafningja um eigin verk og annarra.
Mynd: Kjarval