Listamannarekið rými, gallerí eða listasafn?

Hver er munurinn á listasafni, galleríi og listamannareknu rými?
Myndlist er sýnd á mismunandi stöðum sem kallast ýmsum nöfnum og geta virkað ruglingslega. Það er þó grundvallarmunur á starfseminni.

Listasafn er stofnun sem safnar, rannsakar og sýnir myndlist. Söfn hafa opinberu hlutverki að gegna og ýmsum skyldum. Þau sjá ekki um að selja listaverk sem eru þar til sýnis. Starfsemi listasafna snýr ekki nema að hluta til að safngestum því að þau fást við margt fleira auk sýninganna sem eru í sýningarsölunum.

Gallerí eru nokkurs konar umboðsskrifstofur fyrir listamenn. Þau eru rekin af galleríistum sem er fagfólk á sviði myndlistar. Sýningahald er aðeins hluti af þeirri starfsemi sem þar á sér stað. Gallerí starfa með völdum listamönnum, vinna að því að koma verkum þeirra á framfæri og selja til stofnana eða safnara.

Listamannarekin rými eru sýningarstaðir sem er stýrt af hópi listamanna og í þeirra eigu. Starfsemin snýst að mestu leyti um sýningahald og verkin eru ýmist til sölu eða ekki. Þar eru sýnd verk þeirra listamanna sem reka rýmið og annarra sem boðið er að taka þátt.  

Mynd: Listasafn Reykjavíkur - Hafnarhús