Sýningaropnun – D45 Baldvin Einarsson: Op
Á sýningunni Op skoðar Baldvin samspil þess innra og þess ytra og varpar fram vangaveltum um hvað sé fyrirfram ákveðið, frjálsan vilja og margt fleira. Hann hefur unnið verk í hina ýmsu miðla og notar gjarnan tungumálið og samskipti sem kveikju og efnivið. Sýningarstjóri er Birkir Karlsson.
Baldvin Einarsson (1985) er 45. listamaðurinn til að sýna í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal. Baldvin býr og starfar í Antwerpen í Belgíu. Hann útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og lauk meistarapróf í sömu grein frá Konunglega Listaháskólanum í Antwerpen árið 2013. Hann stofnaði og rak, ásamt öðrum, listamannareknu sýningarýmin Kunstschlager í Reykjavík (2012 – 2015) og ABC Klubhuis í Belgíu (2017-2019). Baldvin hefur sýnt verk sín víða á Íslandi m.a. í safni Péturs Arasonar, Harbinger, Kling & Bang, Listasafni Reykjarvíkur, Listasafni Árnesinga, Hafnarborg og svo hér og þar um Evrópu en þá helst í Belgíu.
Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.