Veldu ár
Egill Sæbjörnsson - Staðarandi og Frásögn
Á þessari fyrstu stóru einkasýningu sinni sýnir Egill Sæbjörnsson (f. 1973) verk þar sem hann hefur með góðum árangri gert tilraunir til að skoða og endurskoða list almennt. Í nálgun sinni á viðfangsefninu blandar hann saman mismunandi miðlum. Egill tekur gjarnan einfalda, hversdaglega hluti, veltir þeim fyrir sér og setur þá í nýtt samhengi. Verk Egils eiga það til að svipa allt í senn til sjónhverfinga, leiksýninga og tónleika með vísun í listasöguna en áhorfandanum getur einnig fundist sem hann sé staddur í vökudraumi auk þess sem verkin vekja oft kæti í einfaldri framsetningu sinni. Egill gefur stundum hlutum í verkum sínum vissa persónuleika og lætur þá jafnvel tala hvern við annan. Þar reynir hann m.a. að benda á samtal manneskjunnar við umheiminn og sýnir hvernig túlkun og sköpun eru í stöðugri þróun og hluti af veruleikanum.
Á sýningunni Staðarandi og frásögn eru fjórar innsetningar: Ping Pong Dance (Borðtenniskúlu dans) (2006), Wall to Wall (Veggur til veggjar) (2008), Grey Still Life II (Grá kyrralífsmynd II) (2009) og Fimm Kassar (2009). Þessi verk eru mismunandi í eðli sínu en hafa þó margt sameiginlegt ef betur er að gáð.
Egill Sæbjörnsson hefur verið búsettur í Berlín frá árinu 1999.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.