Nýmálað – Jólagjöf listunnandans
Nýmálað er vegleg bók með ljósmyndum af öllum verkum sýninganna Nýmálað 1 og Nýmálað 2 á Kjarvalsstöðum á þessu ári. Bókin spannar 195 málverk sem máluð voru á síðustu tveimur árum eftir 88 listamenn auk upplýsinga um þá. Að auki eru hugleiðingar um málverkið í bókinni eftir Gunnar J. Árnason heimspeking og listgagnrýnanda, og listamanninn, listgagnrýnandann og ljóðskáldið Carol Diehl.
Tilgangurinn með bókinni og sýningunni sem hún tengist er að gefa sneiðmynd af þeirri miklu grósku sem er í málaralist hér á landi en þetta er í fyrsta sinn sem svo víðtæk úttekt á íslensku samtímamálverki er gerð. Það er víðtekin skoðun að íslensk samtímalist einkennist af nýjum miðlum en Nýmálað sýnir að vettvangur íslenskrar myndlistar er mun margþættari.
Ritstjórar bókarinnar eru Hafþór Yngvason og Hulda Stefánsdóttir. Um hönnun og umbrot sá Studio Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir. Ljósmyndari er Pétur Thomsen. Bókin kostar 10.900 kr. og fæst í öllum verslunum Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni.