Þrjár sýningar Listasafns Reykjavíkur tilnefndar
Menningarverðlaun DV fyrir árið 2016 verða veitt 15. mars næstkomandi. Í flokki myndlistar eru fimm sýningar tilnefndar og þar af þrjár sýningar sem settar voru upp í Listasafni Reykjavíkur.
Tilnefndar sýningar eru: Uppbrot, sýning á nýjum verkum Elínar Hansdóttur myndlistarkonu í bland við eldri verk eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara. Sýningarstjóri var Dorothée Kirch. Sýningin var sett upp í Ásmundarsafni.
Í öðru lagi er það sýning á verkum Hildar Bjarnadóttur á Kjarvalsstöðum. Sýningin nefndist Vistkerfi lita í sýningarstjórn Ólafar Kristínar Sigurðardóttur. Sýnd voru ofin verk og silkiklútar en allt efnið hafði Hildur litað með náttúrulegum litum úr landi sínu.
Í þriðja lagi er tilnefnd til Menningarverðlauna DV sýning Berglindar Jónu Hlynsdóttur, Class Divider, sem sýnd var í D-sal Hafnarhússins. Sýningarstjóri var Klara Þórhallsdóttir. Sýningin átti að draga athygli að misskiptingu í samfélaginu.
Að auki eru tilnefndar sýning á verkum Jóns Laxdal í Listaasafninu á Akureyri og sýning á verkum Þóru Sigurðardóttur í Listasafni ASÍ. Frestur til þess að taka þátt í netkosningu á vefnum dv.is stendur til miðnættis 14. mars.