Veldu ár

2024 (7)
2023 (21)
2022 (16)
2021 (21)
2020 (21)
2019 (27)
2018 (19)
2017 (21)
2016 (18)
2015 (20)
2014 (19)
2013 (17)
2012 (17)
2011 (22)
2010 (26)
2009 (25)
2008 (24)
2007 (26)
2006 (14)
2005 (16)
2004 (24)
2003 (32)
2002 (18)
2001 (20)
2000 (19)
1999 (13)
1998 (11)
1997 (14)
1996 (17)
1995 (17)
1994 (17)
1993 (22)
1992 (27)
1991 (24)
1990 (24)
1989 (25)
1988 (38)
1987 (38)
1986 (26)
1985 (28)
1984 (34)
1983 (28)
1982 (30)
1981 (26)
1980 (27)
1979 (21)
1978 (23)
1977 (21)
1976 (24)
1975 (19)
1974 (11)
1973 (11)
09.03.2002
05.05.2002

Aðföng 1998 - 2001. Innkaup og gjafir til Listasafns Reykjavíkur

Sýningin á aðföngum Listasafns Reykjavíkur 1998 – 2001 er í tveimur sölum Hafnarhússins, og þar getur að líta úrval af þeim verkum, sem safninu hafa áskotnast síðastliðin fjögur ár. Á sýningunni eru fjöldi verka eftir ýmsa listamenn, en heildarskrá aðfanga Listasafns Reykjavíkur á þessum fjórum árum telur 423 listaverk. Reykvíkingar eru því rúmlega eitt hundrað listaverkum ríkari fyrir hvert þessara ára.

Allt frá tilkomu Kjarvalsstaða árið 1973 hefur Reykjavíkurborg safnað listaverkum eftir íslenska listamenn með markvissum hætti. Árlega hefur verið keyptur nokkur fjöldi listaverka til Listasafns Reykjavíkur (rúmlega fjörutíu verk að meðaltali undanfarin ár), en auk þess hefur safnið hlotið margar höfðinglegar listaverkagjafir frá velunnurum, innlendum og erlendum.

Allir landsmenn vita að stórar gjafir frá listamönnunum Jóhannesi S. Kjarval, Ásmundi Sveinssyni og Erró eru grunnurinn að Listasafni Reykjavíkur, en einnig er rétt að minna á að fjölmargir einstaklingar, listunnendur og listamenn hafa í gegnum árin ánafnað safninu listaverk, og þannig átt stóran þátt í uppbyggingu þess til lengri tíma. Við innkaup listaverka á þessu tímabili hefur sem fyrr verið haft að leiðarljósi að Listasafn Reykjavíkur skuli eftir því sem kostur er eignast framúrskarandi listaverk eftir helsta núlifandi listafólk þjóðarinnar. Jafnframt hefur verið leitast við að nýta tækifæri til að fá til safnsins verk látinna listamanna sem bæta enn frekar þá heildarmynd, sem safneignin getur gefið af þróun myndlistar á Íslandi á síðustu öld.

Markmiðið er því að innkaup safnsins spanni eftir því sem kostur er þá breidd og þær nýju áherslur, sem er að finna í íslensku listalífi hverju sinni; meðal verka sem safnið kaupir má því bæði finna verk viðurkenndra listamanna samtímans, sem og verk yngra listafólks, sem er að hasla sér völl á vettvangi myndlistarinnar. Hér er um að ræða listaverk unnin í margvísleg efni, bæði hefðbundin og framandi, þar sem listamenn glíma við allar helstu myndgerðir samtímalistarinnar.- Lítið eitt hefur verið keypt af erlendum listaverkum til safnsins í gegnum tíðina, og þá einkum með samhengi viðkomandi verka við íslenskan listheim í huga. Slík innkaup hafa ætíð verið takmörkuð, einkum vegna lítilla fjárráða safnsins, en eiga vonandi eftir að aukast í framtíðinni.

Kaup listaverka til safnsins fara þannig fram að forstöðumaður leggur tillögur um innkaup fyrir menningarmálanefnd Reykjavíkur, sem tekur endanlega afstöðu til hvers verks fyrir sig. Tillögurnar sjálfar verða til eftir heimsóknir á sýningar og vinnustofur, eða kynningu með öðrum hætti. Áður en þær eru lagðar fram eru hugmyndirnar gjarna kannaðar frekar, t.d. með umræðum meðal meðal starfsfólks safnsins, samræðum við trúnaðarfólk meðal listamanna og listunnenda, og með viðræðum við áheyrnarfulltrúa myndlistamanna í menningarmálanefnd.

Í reynd hefur skapast sú hefð, að menningarmálanefnd samþykkir þær tillögur sem lagðar eru fyrir hana um kaup listaverka. Því má segja að innkaupin endurspegli því öðru fremur skoðanir forstöðumanns og þeirra sem hann leitar álits hjá á hverjum tíma varðandi hvað beri að telja eftirsóknarvert að bæta í listaverkaeign Listasafns Reykjavíkur. Það er vissulega mikil ábyrgð, en um leið hvatning til að vanda eins og hægt er það val sem þetta starf kallar á.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að innkaup safnsins verði umdeild og að skoðanir manna verði skiptar um hvort það val sem í þeim felst gefi rétta mynd af hvað er að gerast best á íslenskum myndlistarvettvangi.  Algjör sátt og jákvætt samdóma álit um allt sem keypt hefur verið til safnsins væri ábending um doða og átakaleysi í listinni, fremur en frábært innsæi og óskeikula dómgreind þeirra sem valið hafa verkin. Þess má því vænta þess að sýningin nú verði tilefni til skoðanaskipta og íhugunar um innkaup opinberra listasafna á samtímalist, og ber að fagna slíkri umræðu.

Sagan er ætíð hinn mikli dómari, og úrskurður hennar hlýtur einnig að gilda um innkaup listaverka á hverjum tíma. Það verður ekki hægt að kveða upp úr um réttmæti innkaupa samtímans fyrr en að nokkrum tíma liðnum; veki verkin áhuga og eftirtekt að liðnum nokkrum áratugum hefur tekist vel til; þyki listunnendum framtíðarinnar þau klén og tilþrifalítil, verðum við að hlýta þeim dómi. Það er ávallt fagnaðarefni þegar einstaklingum verður hugsað til Listasafns Reykjavíkur þegar kemur að því að ráðstafa eigin listaverkum.

Gjafir hafa alltaf verið einn mikilvægasti þátturinn í uppbyggingu listasafna hér á landi sem annars staðar. Þær gjafir sem safninu berast eru eðli málsins samkvæmt af tvennum toga, þ.e. gjafir listamanna og gjafir listunnenda. Drjúgur hluti þeirra gjafa sem Listasafni Reykjavíkur hafa borist frá 1998 eru viðbætur í Errósafnið (nær tvö hundruð verk), en einnig hafa safninu áskotnast nokkrar gjafir frá öðrum listamönnum, sem eru mikið fagnaðarefni og hafa orðið til að styrkja listaverkaeign safnsins á sviði samtímalistar.

Gjafir til safnsins frá listunnendum, bæði lífs og liðnum, eru afar merkilegur þáttur aðföngum Listasafns Reykjavíkur, og verða seint þakkaðar nægilega. Oft eru slíkar gjafir gefnar í minningu um kynni og vinskap viðkomandi einstaklinga við þjóðþekkta listamenn, og heiðra þannig báða aðila, gefanda og viðkomandi listamann. Flestar slíkar gjafir til safnsins eru frá Íslendingum, verk íslenskra listamanna, en einnig berast safninu á stundum að gjöf verk erlendra listamanna, sem verða til að styrkja safneignina enn frekar.

Sýningin “Aðföng 1998 – 2001” veitir nokkra innsýn í hvaða verk hafa bæst í Listasafn Reykjavíkur á þessu tímabili. Val verka á sýninguna takmarkast skiljanlega af því rými sem henni er ætlað, en einnig hefur verið haft til hliðsjónar að mörg hinna nýju listaverka hafa verið valin á sýningar innan safnsins á þessu tímabili. Þau verða því ekki sýnd hér aftur að sinni, en í stað þeirra eru valin til sýningar verk sem ekki hafa verið sýnd áður innan safnsins. Eiríkur Þorláksson,forstöðumaður.

Listamaður/-menn: 
Sýningarstjóri/-ar: 
Eiríkur Þorláksson
Boðskort: 
Sýningarskrá: 
Umfjöllun fjölmiðla pdf: 
PDF icon 8023091.pdf (123.55 KB)
PDF icon 7799220.pdf (72.45 KB)

Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.