Veldu ár
Andreas Eriksson: Roundabouts / Kjarval: Efsta lag
Á sýningunum Roundabouts og Efsta lag samtvinnast list Andreasar Erikssonar (f. 1975) og Jóhannesar S. Kjarval (1885–1972). Roundabouts er fyrsta alþjóðlega einkasýning Andreasar Eriksson og öll verkin eru frá síðustu tíu árum. Hann er einn virtasti listamaður Svía af sinni kynslóð og hefur unnið að málaralist í rúma tvo áratugi, en vinnur einnig í aðra miðla svo sem skúlptúr, vefnað og ljósmyndir. Andreas var fulltrúi Svíþjóðar í norræna skálanum á Feneyjatvíeyringnum árið 2011 og verk hans hafa verið sýnd víða um heim. Viðfangsefni sækir hann einkum í landslagið umhverfis Kinnekulla í Svíþjóð þar sem vinnustofa hans er. Ekki er um að ræða nákvæmar eftirmyndir náttúrunnar, heldur leitast Andreas við að fanga ástand eða reynslu af umhverfinu og eru verk hans gjarnan kennd við norður-evrópska rómantíska málarahefð.
Hið sama má segja um málverk Kjarvals en þau hafa haft áhrif á list Andreasar. Á ferli sínum þróaði Kjarval með sér ákveðna tækni við að ná fram efniskennd og áferð jarðvegs, og þær áherslur má einnig finna í verkum Andreasar sem leitast við að túlka efnislega tilfinningu fyrir umhverfinu frekar en landslagið í heild. Að skoða landslagið sem ákveðna myndhverfingu eða táknmynd af sjálfri sér sameinar þessa tvo listamenn.
Sýningin Roundabouts er að stofni til samvinnuverkefni Bonniers Konsthall og Listasafns Reykjavíkur, og í samstarfi við Listasafnið í Þrándheimi og CentrePasquArt, Biel. Á Kjarvalsstöðum hefur sýningin verið endurhugsuð og verkum Kjarvals aukið við. Útkoman er persónulegur virðingarvottur hins sænska listamanns við Kjarval og gefur jafnvel þeim sem vel þekkja til Kjarvals nýja og óvænta mynd af list hans.
Sýningin Roundabouts er styrkt af Norræna menningarsjóðnum.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.