Veldu ár

2024 (7)
2023 (21)
2022 (16)
2021 (21)
2020 (21)
2019 (27)
2018 (19)
2017 (21)
2016 (18)
2015 (20)
2014 (19)
2013 (17)
2012 (17)
2011 (22)
2010 (26)
2009 (25)
2008 (24)
2007 (26)
2006 (14)
2005 (16)
2004 (24)
2003 (32)
2002 (18)
2001 (20)
2000 (19)
1999 (13)
1998 (11)
1997 (14)
1996 (17)
1995 (17)
1994 (17)
1993 (22)
1992 (27)
1991 (24)
1990 (24)
1989 (25)
1988 (38)
1987 (38)
1986 (26)
1985 (28)
1984 (34)
1983 (28)
1982 (30)
1981 (26)
1980 (27)
1979 (21)
1978 (23)
1977 (21)
1976 (24)
1975 (19)
1974 (11)
1973 (11)
29.10.2016
01.05.2017

Ásmundur Sveinsson og Þorvaldur Skúlason: Augans börn

Á þessari sýningu má sjá verk eftir þá Ásmund Sveinsson (1893 – 1982) og Þorvald Skúlason (1906 – 1984) sem voru í hópi þeirra listamanna sem stöðugt voru að tileinka sér ný viðhorf innan myndlistarinnar um miðja síðustu öld. Margir íslenskir myndlistarmenn sóttu nám erlendis þar sem þeir kynntust nýjum framsæknum hugmyndum og tóku að færast nær stefnum nútímalistar með tilheyrandi formtilraunum.

Sýningin er samstarf Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Háskóla Íslands. 

Ásmundur og Þorvaldur lögðu báðir ríka áherslu á formrænt myndmál verka sinna og sóru sig þannig í ætt við móderníska hefð. Þeir gerðu sér góða grein fyrir sögulegu gildi efniviðarins og beindu sjónum sínum að efnislegum eigindum verkanna fremur en að líta á þau sem gáttir til ytra umhverfis. Þrátt fyrir að þeir veldu sér ólíka miðla voru Ásmundur og Þorvaldur að mörgu leyti hugmyndabræður og talaði Ásmundur um Þorvald sem sálufélaga sinn í myndlist. Enda þótt hægt sé að tímasetja nokkurn veginn hvenær Þorvaldur færði sig að öllu leyti yfir í óhlutbundið myndmál, þá eru mörkin engu að síður nokkuð óljós. Eins er í sjálfu sér ómögulegt að benda á það hvenær, Ásmundur sleit sig með öllu frá fígúrasjón í verkum sínum, hafi hann gert það á annað borð. Smám saman tók hið óhlutbundna myndmál völdin í verkum þeirra beggja. Myndirnar urðu sjálfstæð fyrirbæri og án vísana í hlutveruleikann. Ferill þeirra endurspeglar þannig móderníska framvindu sem stefndi frá viðteknum venjum og að markvissu samtali við samtímann.

Ásmundur Sveinsson er einn af frumkvöðlum höggmyndalistar hér á landi. Á ferli sínum fékkst hann við klassískan stíl, massífan og jarðbundinn stíl frásagnarverka og yfir í frjálst og óhlutbundið myndmál þar sem léttleiki og leikur réðu för. 
Ásmundur var fæddur árið 1893 á Kolsstöðum í Dölum þar sem hann vann við bústörf til tuttugu og tveggja ára aldurs. Snemma kviknaði innra með honum löngun til að skapa en Daladrengurinn hafði ekki margar fyrirmyndir í myndlist hér á landi, því að aðeins örfáir höfðu þá lagt stund á listnám. Úr varð, árið 1915, að Ásmundur fluttist til Reykjavíkur til að leggja stund á tréskurð hjá Ríkarði Jónssyni og læra teikningu undir handleiðslu Þórarins B. Þorlákssonar listmálara.

Eftir að Ásmundur lauk námi í iðn sinni árið 1919 fluttist hann til Kaupmannahafnar og hófst þar tíu ára námsferill. Hann lærði teikningu einn vetur  í Danmörku og síðan höggmyndalist í Stokkhólmi undir leiðsögn Carls Milles. Ásmundur útskrifaðist frá sænsku listaakademíunni vorið 1926 og hélt til Parísar þar sem hann naut meðal annars leiðsagnar franska myndhöggvarans Charles Despiaus. Árið 1929 fluttist Ásmundur aftur til Íslands og hóf feril sinn sem myndhöggvari í Reykjavík.

Í upphafi óf hann í verk sín hugmyndir tengdar íslenskri sagnahefð og raunveruleika vinnandi stétta. Í verkum hans frá þeim tíma má sjá stórskornar alþýðuhetjur og smám saman ummyndast líkamar þeirra. Verkin vísa veginn og þar einfaldast hið natúralíska form með því að öllum smáatriðum er sleppt. Í verkum Ásmundar gætir áhrifa úr ólíkum áttum. Sjálfur talaði hann um mótandi reynslu úr æsku, þegar hann stundaði smíðar og margvíslegt annað handverk í sveitinni. Sú reynsla hafði áhrif bæði á stíl hans og efnisnotkun. Einnig var hann undir margvíslegum áhrifum frá módernískum liststraumum á meginlandi Evrópu eftir dvölina þar. Ásmundur hafði að sama skapi einstaka hæfni til að efnisgera hugmyndir sínar, svo sem í anda kúbisma en halda um leið persónulegum stíl og frjálsri afstöðu til ismanna.
Um miðbik ferils síns á sjötta og sjöunda áratugnum fór Ásmundur að vinna í járn og urðu þar kaflaskil í listsköpun hans og vinnuaðferðum. Hann hætti að móta eða höggva út verk sín og fór þess í stað að safna saman efni. Hann raðaði saman málmbútum og brotajárni, oft lítið eða ekkert breyttu. Hófst þar þriggja áratuga tímabil þegar Ásmundur vann út frá forsendum efnisins og módernískri formhugsun. Í þessum skúlptúrum Ásmundar má víða sjá malerísk áhrif afstraktlistarinnar þar sem járnið verður í senn óhlutbundin teikning og áþreifanlegur hlutur. Hann lætur form og kraft skúlptúrsins draga fram eiginleika efnisins, og gefur áhorfandanum leyfi til að horfa, skynja og njóta. Þrátt fyrir þessa óhlutbundnu notkun á línu og formum má enn finna nálægð við náttúruna, þjóðsögurnar og íslenska sagnahefð

Árið 1976 ánafnaði Ásmundur Reykjavíkurborg heildstæðu og öflugu æviverki sínu. Hann lést 9. desember 1982 og var Ásmundarsafn opnað almenningi ári síðar.

Þorvaldur Skúlason tók þátt í að ryðja nýjum hugmyndum braut í íslenskri nútímalist með óhlutbundnum tilraunum á tvívíðum fleti málverksins. Hann var upprennandi myndlistarmönnum hvatning og var í fararbroddi hópsins sem stóð fyrir Septembersýningunum svokölluðu í Reykjavík undir lok fimmta áratugarins og í byrjun hins sjötta. Ásamt öðrum stofnaði Þorvaldur SEPTEM- sýningarhópinn 1974 og tók þátt í sýningum hans til æviloka.

Þorvaldur fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð árið 1906 en ólst upp á Blönduósi. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1921 og naut fyrst leiðsagnar hjá Ríkarði Jónssyni myndskera og Þórarni B. Þorlákssyni listmálara. Síðar sótti hann tíma hjá Ásgrími Jónssyni listmálara. Árið 1927 tók Þorvaldur í fyrsta sinn þátt í  opinberri myndlistarsýningu, sýningu Listvinafélagsins í húsi þess á Skólavörðuholti. Árið 1928 hlaut Þorvaldur opinberan styrk frá Alþingi til að vinna að list sinni og hélt í kjölfarið til náms í Ósló. Meðal kennara hans voru þeir Axel Revold og Jean Heiberg sem unnu út frá lita- og formkenningum frönsku málaranna Cézanne og Matisse.

Á þessum tíma voru verk Þorvalds enn hlutbundin en hann virðist þó hafa velt fyrir sér afstraktmyndmáli áður en hann fór af landi brott. Árið 1926 gerði Þorvaldur teikningu sem hugsanlega er fyrsta meðvitaða tilraun hans til óhlutbundinnar myndgerðar eða afstraksjónar. Um er að ræða litla skissu sem listamaðurinn hripaði í vinnubók sína, áritaði og gaf titilinn Composition. Áritunina krotaði hann síðar yfir, þótt hún sé enn vel læsileg. Af hvaða ástæðu sem Þorvaldur krotaði yfir skissuna og lét þar við sitja í þróun afstraktmyndmáls næstu tvo áratugi, þá var áhugi hans á slíkri myndgerð vakinn.

Frá Noregi hélt Þorvaldur til Parísar árið 1931 og vann þar um veturinn undir leiðsögn Marcels Gromaires. Þaðan fluttist hann síðan til Kaupmannahafnar og svo aftur til Frakklands árið 1938, en til Tours í þetta skiptið. Þorvaldur segir svo frá að þar hafi hann einbeitt sér að gerð afstraktmynda. Eftir hernám Þjóðverja vorið 1940 neyddist hann til að yfirgefa Frakkland í skyndi og skildi þá öll verk sín eftir á heimili sínu í Tours. Ekki er vitað með vissu um afdrif þeirra mynda en Þorvaldur taldi að leigusali hans hefði selt þær fyrir lítið. Eftir heimkomuna sá Þorvaldur ekki grundvöll fyrir því í bili að halda óhlutbundnum tilraunum sínum áfram.

Um miðjan fimmta áratuginn tók Þorvaldur aftur upp þráðinn og fór af fullum krafti inn í myndbyggingu sem svipar til þess sem hann skildi eftir í vinnubókinni tveimur áratugum fyrr. Eftir það og til dauðadags, 30. ágúst árið 1984, vann Þorvaldur ötullega að því að þróa eigið óhlutbundið myndmál. Enda þótt Þorvaldur hafi sjálfur eingöngu haldið sýningar á olíumálverkum sínum, þá var hann iðinn við að teikna og skildi eftir sig stórt og mikilvægt safn teikninga, skissna og vatnslitamynda sem varðveittar eru í Listasafni Háskóla Íslands. Teikningarnar gefa mikilsverða innsýn inn í myndhugsun og þróunarsögu verka hans og eru ásamt málverkum hans hryggjarstykkið  í sérstakri deild í Listasafni Háskóla Íslands: Þorvaldssafni.

 

 

 

 

Sýningarstjóri/-ar: 
Bryndís Erla Hjálmarsdóttir
Viktor Pétur Hannesson
Myndir frá opnun: 

Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.

Viðburðir tengdir sýningu