Veldu ár
D4 Daníel Björnsson
Daníel Björnsson (f. 1974) helgar rými salarins með lituðu ljósi sem hann blandar á svipaðan hátt og málari sem endurskapar veröldina með litum. Veröld Daníels er reitur unninn úr ljósi og hráum efniviði sem ber með sér yfirbragð forgengileika og vísar til garðsins sem táknmyndar sjálfsins. Áhugi hans á mikið notuðum táknmyndum endurspeglast í tré byggðu í miðju rýmisins sem getur í senn verið skilningstréð og Askur Yggdrasils sem gengur upp í gegnum miðju heimsins og umlykur hann með rótum sínum og krónu. Sú sjálfsmynd sem garðurinn birtir er forgengileg og ef til vill nokkuð bjöguð eins og verkið sýnir í ljósmynd af þýskri njósnaflugvél sem teiknuð er yfir Hljómskálagarðinum eftir lýsingum sjónarvotta. Þessi bjögun er einnig sýnileg í þeirri einlægu fegurð sem felst í miðevrópskum skrúðgarði endursköpuðum við hlið matjurtagarðs á íslenskum sveitabæ. Sjálfsmynd samtímans er á svipaðan hátt byggð á okkar eigin staðbundna raunveruleika og hugmyndunum sem við fóstrum um hið alþjóðlega, bjöguð mynd af okkur sem gerendum á alþjóðlegum vettvangi viðskipta jafnt sem lista.
Daníel lauk BA námi í myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2002 og hefur síðan verið virkur í sýningahaldi á Íslandi og erlendis. Hann hefur á undanförnum árum tekið þátt í öflugu starfi ungra myndlistarmanna í Reykjavík, bæði sem gerandi og hreyfikraftur í tengslum við gallerí Kling & Bang.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.