Veldu ár
D48 Dýrfinna Benita Basalan: Langavitleysan – Chronic Pain
Í tvöföldu heiti sýningarinnar kemur fram tvíhyggja sem Dýrfinna Benita upplifir sem blandaður einstaklingur. Raunveruleiki þar sem hún nýtur þeirra forréttinda að vera Íslendingur en tilheyrir þó jaðarhóp. Á meðan Langavitleysan er marglaga og leikandi orð er chronic pain enska heitið yfir langvinna verki, sársauka sem listamaðurinn og margir aðrir þekkja. Þeir sem þekkja til í Breiðholti vita að Langavitleysa er viðurnefni 320 metra langrar blokkar í Fellahverfinu sem klýfur hverfið eins og virkisveggur en Breiðholtið eru æskustöðvar listamannsins. Með sýningunni hugsar Dýrfinna Benita til þeirra sem tilheyra jaðarsettum hópum og spyr hvort hægt sé að ná jafnvægi? Hún notar hér sín eigin forréttindi sem myndlistarmaður með vettvang til sýningar í opinberu safni til að fanga raunveruleika sem hefur varla verið sýnilegur í Íslenskri myndlist hingað til.
Dýrfinna Benita Basalan (f.1992), einnig þekkt undir listamannsnafninu Countess Malaise, er fædd og uppalin á Íslandi. Árið 2018 útskrifaðist hún frá Gerrit Rietveld Academie með B.A. gráðu í myndlist og hönnun og hefur starfað síðastliðin ár sem myndlistarkona á ýmsum vettvangi. Hún dregur myndheim sinn ýmist úr jaðarkúltúr á borð við manga, hinsegin menningu og persónulegri reynslu sem blandaður einstaklingur. Dýrfinna er einn af þremur meðlimum Lucky 3 hópsins ásamt Melanie Ubaldo og Darren Mark sem vann hvatningarverðlaun myndlistarráðs 2022. Nýlegar sýningar Dýrfinnu eru Temprun (UwU) í Gallerí Þulu og Lífsleikni í Listval Granda. Nýlegar sýningar Lucky 3 eru Lucky Me? í Kling og Bang og PUTI á Sequences X.
Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.