Veldu ár
Einskismannsland – Ríkir þar fegurðin ein?
Með listsköpun sinni hafa myndlistarmenn haft mótandi áhrif á tengsl manna við umhverfi sitt jafnframt því sem verk þeirra endurspegla tíðaranda og samfélagsþróun. Á sýningunni er sjónum beint að verkum listamanna sem endurspegla tengsl Íslendinga við víðerni landsins og breytilegt verðmætamat gagnvart náttúrunni.
Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík 2018 og hluti af 100 ára afmæli fullveldis þjóðarinnar.
Landið hefur verið þjóðinni allt frá huglægu tákni til efnislegrar auðlindar. Sýnd eru verk helstu listamanna þjóðarinnar allt frá árdögum íslenskrar myndlistar þegar landið og víðerni þess voru táknmyndir frelsis og sjálfstæðis og til verka listamanna samtímans með vísan í hnattræna umræðu um gildi hins ósnortna og nýtingu auðlinda.
Víðernin leika hlutverk í sjálfsmynd og ímyndarsköpun landsmanna, þau eru mönnum rannsóknarefni og tilraunastöð, áskorun og afþreying, andleg og líkamleg heilsulind sem og ótæmandi brunnur ímyndunaraflsins. Verkin á sýningunni endurspegla þessar ólíku hugmyndir eins og þær birtast í meðförum listamanna á hverjum tíma þótt leiðarljós þeirra sé ætíð listræn sýn og persónubundin túlkun. Sýningin er þematísk samsýning með verkum íslenskra listamanna frá upphafi 20. aldar og til samtímans en nokkur hluti verkanna verður nýr og unninn sérstaklega fyrir sýninguna.
Sýningin er tvískipt, sögulegur hluti hennar á Kjarvalsstöðum en verk eftir listamenn 21. aldarinnar verða sýnd í Hafnarhúsi. Jafnframt er tekist á við áleitnar spurningar um inntak sýningarinnar í viðamikilli útgáfu og dagskrá samhliða henni.
Ferðalag fyrir fjölskyldur um Einskismannsland
Bakpoki er til láns fyrir börnin með spennandi leiðangri um sýninguna. Hægt er að nálgast bakpokann án endurgjalds í afgreiðslu.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.