Veldu ár
Frá hugmynd að höggmynd - Teikningar Ásmundar Sveinssonar
Í sýningunni Frá hugmynd að höggmynd – Teikningar Ásmundar Sveinssonar er veitt innsýn í ríkulegt safn teikninga sem myndhöggvarann Ásmundur Sveinsson lét eftir sig. Á sýningunni hafa verið valdar saman myndir sem tengja má eftir ákveðnum viðfangsefnum, sem ganga eins og rauður þráður í gegnum safnið.
Einnig eru sýndar fjölmargar teikningar sem tengja má einstökum höggmyndum Ásmundar, einkum frá fyrri hluta ferils hans, ásamt höggmyndunum sjálfum. Nýlega var lokið skráningu og rafrænni skönnun allra teikninga í eigu Listasafns Reykjavíkur – Ásmundarsafns, og er mikill fengur að því að geta nú loks kynnst þessari hlið á listsköpun Ásmundar Sveinssonar. Umræddar teikningar eru tæplega 2.000 talsins og þar má finna fjölbreytt viðfangsefni; helgimyndir, landslagsteikningar, formstúdíur, mannamyndir og allt sem nöfnum tjáir að nefna – þar á meðal nokkurn fjölda teikninga sem tengja má við einstakar höggmyndir, sem Ásmundur Sveinsson vann á langri og gifturíkri starfsævi.
Teikningar Ásmundar Sveinssonar hafa ekki verið mikið sýndar, og má vænta þess að þær veki verðskuldaða athygli allra þeirra sem hafa áhuga á að kynnast nýjum þætti í íslenskri listasögu og listsköpun þessa ágæta listamanns.
Dagskrá:
Sunnudag 15. maí kl. 14
Ásmundarsafn – Frá hugmynd að höggmynd Fjölskylduleiðsögn og smiðja
Sunnudag 21. ágúst kl. 15
Ásmundarsafn – Frá hugmynd að höggmynd Sýningastjóraspjall- Eiríkur Þorláksson ræðir við gesti um sýninguna.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.