Veldu ár
Gary Schneider: Nekt
Á sýningunni sýnir hann myndir af þrjátíu nöktum kvenmans- og karl líkömum í raunstærð sem teknar eru með sérhæfðri tækni. Líkamarnir liggja allir eins, í hlutlausum stellingum á meðan Scheider færir geisla vasaljósa hægt yfir líkamana og dregur fram einkenni þeirra með ljósi og skuggum. Í texta eftir ljósmyndarann Einar Fal Ingólfsson um sýninguna segir m.a. að verk Garys séu „...í senn málverk og ljósmyndir; filman skráir það sem listamaðurinn lýsir upp á löngum tíma. Ljósið málar fyrirsætuna á filmuna. Fyrirsætan liggur á svörtu klæði á gólfi, í myrkvuðu rýminu. Linsa myndavélarinnar er opin í allt að klukkustund og á meðan lýsir Schneider líkamann með litlu vasaljósi.
Hann byrjar á andlitinu hægra megin, færir sig svo rólega niður eftir líkamanum þeim megin, fer síðan upp eftir vinstri hluta líkamans og endar á vinstri hluta höfuðsins. Ef lýst er lengur á einn hluta en annan verður sá hluti bjartari á myndinni. Í nektarmyndum Schneiders eru allar fyrirsæturnar í sömu stellingu, hvíla hendur á mjöðmum og horfa beint í linsuna. Á öllum myndunum á athyglisverð breyting sér stað í augntilliti fólksins. Hægra augað horfir ákveðið út í heiminn en það vinstra virðist hins vegar frekar horfa inn á við, er íhugult, jafnvel varnarlaust eða viðkvæmnislegt. Þessu veldur að nær klukkustund líður frá því hægra augað er lesið á filmuna þar til það vinstra er lýst upp.
Þessi mikla nekt fyllir suma eflaust óöryggi – en um leið komumst við ekki undan því að viðurkenna að svona erum við. Þetta eru myndir af fólki eins og okkur; svona komum við í þennan heim og svona yfirgefum við hann.“
Ljósmyndarinn Gary Schneider fæddist í Suður Afríku árið 1954 en býr og starfar í New York. Sýningar á verkum hans hafa ratað í mörg af stærstu listasöfnum Bandaríkjanna og Evrópu og eru verk hans einnig hluti af safneign margra þeirra.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.