Veldu ár
Hannes Lárusson: Hús í hús
Fyrstu tvær einkasýningar Hannesar í opinberum sýningarsal voru í Galleríi Suðurgötu 7, í húsi sem stóð á horni Suðurgötu og Vonarstrætis. Sýningin sem Hannes hélt 1980, þegar hann var tuttugu og fjögurra ára gamall, bar strax ýmis merki sem urðu dæmigerð fyrir myndlistariðkun hans. Margbrotinn samsetningur af efnum, aðferðum og táknum, þráhyggjukennd endurtekning, og þrautum sem listamaðurinn setur sjálfum sér fyrir.
Á neðri hæðinni hafði Hannes komið fyrir rafmagnsofni, sem hann notaði til að baka brauð. Á hverjum degi mætti hann í sýningarsalinn, hnoðaði saman deigi og stakk því í ofninn. Brauðhleifunum var raðað upp undir vegg og söfnuðust saman eftir því sem á leið sýninguna. Að því loknu fór hann upp á efri hæðina, þar tók hann til við að mála mynd á striga sem var strengdur á einn vegginn.
Hannes valdi mynd úr myndaörk tengdri kristnifræði fyrir börn, sem sýndi góða hirðirinn, að leggja líf sitt í hættu við björgun lambs í sjálfheldu, og eftir henni málaði Hannes að hætti tómstundamálara. Biblíumyndirnar voru jafnframt endurprentaðar í frímerkjastærð á pappírsörk og fylgdu með sýningunni sem dreifirit, en myndin af hirðinum var stækkuð upp á sér blaði. Til að stytta mönnum stundir spilaði plötuspilari í sífellu létta klassíska tónlist, vínarvalsa, tangó og Brandenburgarkonserta.
Með þessari æfingu var Hannes ekki aðeins að ganga þvert á viðteknar hugmyndir um myndlist, heldur var hann einnig að víkja sér undan algengum hugmyndum konseptlistamanna um róttækar aðferðir í myndlistariðkun. Brauðbaksturinn var einum of hversdagslegur til að geta talist gjörningur, brauðhrúguna varla hægt að telja skúlptúr og eftirlíking á klisjukenndri biblíumynd, við undirleik léttklassískrar tónlistar, of andlaus til að geta talist málverk.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.