Veldu ár
Hliðstæður
Í bókmenntum er talað um hliðstæður þegar setningar eða setningarliðir eru endurteknir með sömu orðaröð og svipuðum orðafjölda. Eins má tala um hliðstæður í myndlist þegar uppbygging tveggja eða fleiri listaverka er á einhvern hátt sambærileg. Verkin á sýningunni spanna rúmlega 70 ára tímabil en hér finnum við hvorki sögulegt yfirlit né þematengingar, heldur er verkum ólíkra listamanna spilað saman og með þeim hætti reynt að draga fram líkindi þeirra á milli.
Vensl verkanna eru tilfallandi, án beinna áhrifa eða vísvitandi skírskotana. Í flestum tilfellum eiga listamennirnir fátt sameiginlegt. Þeir eru afsprengi ólíkra tíma, innblásnir af mismunandi hugmyndum og liststefnum, en eru þó kvistar af sama meiði. Sem listmálarar standa þeir frammi fyrir sambærilegum valkostum og stundum má finna hliðstæður í verkum þeirra sem geta vakið nýjan skilning og opinberað óvæntar forsendur að baki verkanna. Öll verkin á sýningunni eru úr safneign Listasafns Reykjavíkur.
Sýningarstjóri: Hafþór Yngvason
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.